Hagnaður af rekstri Loðnuvinnslunnar h/f fyrstu 6 mánuði ársins 2005 nam tæplega kr. 28 millj. eftir skatta, en var kr. 1,6 á sama tímabili árið 2004.
Rekstrartekjur félagsins að frádregnum eigin afla voru kr. 1.418 millj. og hækkuðu um 4,7 % miðað við árið á undan. Hagnaður fyrir afskriftir og frjámagnsliði (EBITDA) nam kr. 159 millj. sem er 11,2% af tekjum og veltufé frá rekstri var kr. 127 millj. eða 9% af veltu. Til samanburðar var fjármunamyndunin kr. 118 millj. eða 11,4% á sama tíma árið 2004. Afskriftir voru kr. 115 millj. og hækkuðu um kr. 6 millj. frá fyrra ári. Fjármagnsliðir voru neikvæðir um kr. 20 millj. og lækkuðu um kr. 22 millj. miðað við árið á undan.
Eigið fé félagsins var í lok tímabilsins kr. 1.478 millj., sem er 50% af niðurstöðu efnahagsreiknings og hafði hækkað um kr. 41 millj. á milli ára. Nettó skuldir voru kr. 975 millj. og höfðu lækkað um kr. 109 millj. miðað við sama tíma 2004.
Loðnuvinnslan tók á móti liðlega 81.000 tonnum af sjávarafla á tímabilinu, sem er aukning um 9.000 tonn.
Aflinn skiptist þannig: Loðna 42.000 tonn, kolmunni 36.000 tonn, síld 1.800 tonn og bolfiskur 1.600 tonn..
Afkoma félagsins á síðari hluta ársins ræðst einkum af því hvernig síldarvertíðin kemur til með að ganga, þróun olíuverðs og stöðu íslensku krónunnar.