Hver vegur að heiman er vegurinn heim segir í dægurlagi sem gerir það væntanlega að verkum að leiðin heim sé jafnlöng leiðinni að heiman.  Hugtakið „heima“ getur líka átt við fleiri en einn stað í huga manneskju. Þannig er það hjá Björgvini Mar Eyþórssyni húsasmiði.  Hann er uppalinn hér í Búðarþorpi við Fáskrúðsfjörð, sleit hér barnsskónum og unglingaskónum líka, hér gekk hann um fjöll og fjörur og varð að manni. Hann fór ungur að vinna sem handlangari hjá föður sínum, sem líka er smiður, og lærði þá að drekka kaffi með mikilli mjólk og miklum sykri og dýfa kringlu ofan í.  Sextán ára gamall fór hann í Verkmenntaskólann í Neskaupstað, sem þá hét Iðnskóli, til þess að læra að verða smiður.  Þar kynntist hann ungri konu og skemmst er frá því að segja að Björgvin hefur búið á Neskaupstað allar götur síðan fyrir utan þrjú ár sem þau hjúin dvöldu á Akureyri til að mennta sig. Nú, öllum þessum árum síðar, á Björgvin fjögur börn á aldrinum 6 til 20 ára.

Nú er Björgvin komin heim til að smíða. Heim til Fáskrúðsfjarðar, svo um helgar þegar hann á frí fer hann heim til Neskaupstaðar, það er fallegt að geta átt meira en einn stað til þess að kalla þessu fallega orði „heima“.  En hvað er hann að smíða?  „Við hjá Nestak erum að smíða grunn fyrir Loðnuvinnsluna sem á fer stálgrindahús“ svaraði Björgvin.  Um er að ræða rúmlega 1300 fermetra hús að grunnfleti sem á að nýtast sem vinnsluhús fyrir uppsjávarfisk auk þess sem þar verður líka nýtt löndunarhús. Verður það mikil bragabót að fá nýtt hús fyrir þessa vinnslu því að húsin sem það kemur til með að leysa af hólmi eru ekki í takt við nýja tíma. 

Nestak er fyrirtæki sem er stofnað í Neskaupstað 1988, það er í eigu 6 starfsmanna en hjá þeim starfa u.þ.b 25 einstaklingar.  „Við vorum mjög sátt þegar við fengum þetta verk hjá Loðnuvinnslunni“ sagði Björgvin og hann rifjaði upp að hann hefði á sínum yngri árum farið í starfskynningu innan all nokkurra deilda eins og í vélsmiðjunni, rafmagnsverkstæðinu, vörutalningu í verslun Kaupfélagsins á sínum tíma, í salthúsinu og meira að segja farið einn túr á Ljósafellinu.

Það er gott að vinna úti í góðu veðri, en veðrið undanfarið hér á austurlandi hefur ekki verið sérlega spennandi til útiverka en fólkið frá Nestak lætur það ekki á sig fá. „Fyrstu vikuna var alveg frábært veður, sól og blíða, en svo tók rigningin við. Þá göllum við okkur bara upp, tökum lýsi á morgnana og hugsum bara um að vinna, ekki um veðrið“ sagði Björgvin brosandi enda þurrt og fallegt veður þegar við áttum spjall.

Það tekur tíma að koma upp byggingu af þessari stærðargráðu og margir þættir sem þurfa að ganga saman, það þarf sérfræðinga af öllu tagi til þess að fullklára en Björgvin og félagar eru sérfræðingar í smíða og gera það ötullega og hafa á staðnum á bilinu 5 til 11 starfsmenn hverju sinni.

En þegar Björgvin var spurður að því hvernig væri að vinna á æskuslóðum sagði hann það vera gott, hann gistir hjá foreldrum sínum á virkum dögum og „við pabbi dottum yfir fréttunum, það er heimilislegt“ sagði hann kankvís, kvaddi svo og snéri sér aftur að vinnunni.

BÓA

Björgvin Mar Eyþórsson

Hér sést hvað þetta verður vegleg bygging. Ljósmynd: Björgvin Mar Eyþórsson.