Nú hefur Hoffell SU 80 lokið kolmunna veiðum í bili. Sigurður Bjarnason skipstjóri á Hoffelli sagði að það hefði gengið afar vel að afla þeirra 8600 tonna sem Hoffell hefur landað í apríl mánuði. „Apríl hefur aldrei verið eins góður“ sagði Sigurður, „ það var mokveiði og þrátt fyrir að við hefðum ekki verið í neinu stressi, náðum við þessum tonnum í fjórum túrum“ bætti skipstjórinn við.

Kolmunni er fiskur sem Íslendingar hafa nýtt til bræðslu og framleitt úr honum mjöl og lýsi.  Hoffell hefur landað öllum sínum afla í heimahöfn hér á Fáskrúðsfirði en þar að auki hafa allnokkur erlend skip landað sínum kolmunnaafla hér og því hefur Fiskmjölsverksmiðja Loðnuvinnslunnar haft ærin verkefni að undan förnu.

Hoffell á þó inni einhvern kvóta í kolmunna og verður sá kvóti geymdur fram á haustið þegar fiskurinn verður orðinn feitur og fínn eftir sumarið.  „Á þessum árstíma horast fiskurinn töluvert, við sáum það glögglega á síðasta farminum“ fræddi Sigurður skipstjóri greinarhöfund og bætti því svo við að þegar fiskurinn væri fitulítill færi hann að mestu í mjöl en ef hann er feitur þá vinnst töluvert af hráefninu í lýsi, og öll vitum við hvað lýsi er hollt fyrir allar lifandi verur.

Svo næstu vikur mun Hoffell SU 80 vagga við bryggju hér heima á Búðum við Fáskrúðsfjörð, því verður eflaust klappað eitthvað og undirbúið fyrir makríl veiðar sem hefjast að öllum líkindum í júní. 

BÓA

Hoffell við bryggju á Fáskrúðsfirði þann 1.maí 2025. Ljósmynd: Jónína Guðrún Óskarsdóttir