Aðalfundir Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga og Loðnuvinnslunnar voru haldnir föstudaginn 25.apríl sl.  Sú hefð hefur skapast að útdeila styrkjum til félagasamtaka og stofnana á aðalfundum félaganna. Er þá um að ræða vænar upphæðir sem afhentar eru með formlegum hætti, en bæði Kaupfélagið og Loðnuvinnslan styrkja hin ýmsu málefni stór og smá allt árið um kring.

Starfsmannafélag Loðnuvinnslunnar hlaut 10 milljónir króna í styrk í sína starfsemi. Gengur sú starfsemi út á að bjóða félagsfólki  upp á afþreyingu og skemmtun í formi samveru og ferðalaga og er starfsmannafélagið ötult í sínu starfi. Þórhildur Elfa Stefánsdóttir er í stjórn starfsmannafélagsins og var að vonum ánægð með styrkinn. „Við  þökkum kærlega fyrir okkur, þessi peningur mun nýtast vel í okkar starfi“ sagði Þórhildur.

Björgunarsveitin Geisli fékk styrk að upphæð 6 milljónir króna.  Loðnuvinnslan hefur verið dyggur bakhjarl Geisla um árabil. Að þessu sinni rennur styrkurinn upp í kostnað vegna endurnýjunar á bíl sveitarinnar, en nýr,  glæsilegur og sérútbúinn jeppi til björgunarstarfa er væntanlegur innan tíðar. Sá gamli var komin á átjánda ár og orðið tímabært að Útkallsbíll 1 yrði uppfærður. Grétar Helgi Geirsson er formaður björgunarsveitarinnar Geisla. „Það er sannarlega gott að eiga góða að þegar á reynir“ sagði Grétar Helgi og bað um að þökkum til Loðnuvinnslunnar yrði komið á framfæri. „Það er stór biti fyrir litla sveit að kaupa bíl upp á 40 milljónir króna og því er styrkurinn okkur afar mikilvægur“ bætti formaðurinn við.

Þá hlaut Ungmennafélagið Leiknir 19 milljónir króna í styrk. Leiknir er félagsskapur þar sem ungir sem aldnir stunda hinar ýmsu íþróttir. Það hefur margar deildir innan sinna vébanda og sinnir mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Vilberg Marinó Jónasson er formaður Leiknis og þakkaði hann fyrir þennan rausnarlega styrk. „Þetta er ómetanlegt og við erum afar sátt“, sagði Vilberg.

Félagsskapur um Franska daga hlaut 2,5 milljónir króna í styrk frá Loðnuvinnslunni og aðrar 2,5 milljónir frá Kaupfélaginu. Bæjarhátíðin Franskir dagar, sem haldin er árlega á Búðum við Fáskrúðsfjörð, er vettvangur samveru og gleði. Íbúar og gestir njóta fjölbreyttrar dagskrár sem skipuleggjendur hátíðarinnar setja upp og styrkir sem þessir geta gert það að verkum að dagskrá og umbúnaður verði með glæsilegasta móti.  Birkir Snær Guðjónsson er formaður félags um Franska daga. „Við erum gríðarlega þakklát fyrir styrkinn, bæði frá Loðnuvinnslunni og Kaupfélaginu. Þetta skiptir virkilega miklu máli fyrir okkur, án þessa styrkja yrðu Franskir dagar vart svipur hjá sjón“ sagði Birkir Snær.

Hjúkrunarheimilið Uppsalir hlaut að gjöf frá Kaupfélaginu búnað til nota á Uppsölum. Um er að ræða veltidýnu og ákveðna gerð af tæknibúnum sturtustól.  Er þetta búnaður sem kemur að afar góðum notum og mun verða bæði heimilisfólki og starfsfólki þar til mikillar bóta. Helga Sturludóttir hjúkrunarfræðingur sagði það vera mjög dýmætt að fá svona stuðning og þakkar fyrir.

Við erum lánsöm sem samfélag að hafa Kaupfélagið og Loðnuvinnslunna sem styðja og styrkja hina ýmsu starfsemi, starfsemi sem eykur lífsgæði íbúa hvort heldur þeir eru ungir eða aldnir.

Eftir þennan pistil eiga þessi lokaorð vel við;

Gefðu alltaf án þess að muna og þiggðu alltaf án þess að gleyma.


BÓA

Frá vinstri: Elvar Óskarsson stjórnarformaður Loðnuvinnslunnar, Garðar Svavarsson framkvæmdastjóri LVF, Helga Sturludóttir deildarstjóri Uppsölum, Birkir Snær Guðjónsson formaður Franskra daga, Þórhildur Elfa Stefánsdóttir frá starfsmannafélagi Lvf, Grétar Helgi Geirsson formaður björgunarsveitarinnar Geisla, Vilberg Marinó Jónasson formaður Leiknis og Steinn Jónasson stjórnarformaður Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga.

Steinn Jónasson stjórnarformaður Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga.

Garðar Svavarsson framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar.

Fundagestir

Elvar Óskarsson stjórnarfomaður Loðnuvinnslunnar