Stundum er haft á orði að þegar einar dyr lokist, opnist aðrar.  Oft er gripið í þetta orðatiltæki þegar breytingar verða á högum fólks. Á Sandfelli SU 75 hafa orðið breytingar á högum áhafnarmeðlima. Eins og mörgum er kunnugt eru tvær áhafnir á Sandfelli sem vinna tvær vikur í senn og eiga svo tvær vikur í frí.  Því er tveir skipstjórar sem sitja við stjórnvölinn, sinn á hvorri vaktinni.

Róbert Gils Róbertsson er annar þeirra. Hann var í fríi þegar greinarhöfundur náði tali af honum. Hann er búsettur í Mosfellsbæ ásamt fjölskyldu sinni og var að dunda sér við jólaskreytingar.  Róbert hefur verið á Sandfelli síðan árið 2018. Var ráðinn sem vélstjóri. En Róbert hefur æðstu menntun skipstjórnar „en ég hef samt alltaf verið á línubát“ sagði Róbert. Hann hefur verið á sjó í tæp 27 ár og þrátt fyrir að hafa réttindi upp á að mega stjórna stóru skipi velur hann línuveiðar. Það segir hann að henti sér best. Það var svo sumarið 2023 að hann tók við sem skipstjóri á annarri vaktinni.

Róbert sagði það líka vera fjölskylduvænt að vinna tvær vikur og eiga frí í tvær. „Þó svo að vinnan sé langt að heiman eru fríin góð og ég veit alltaf langt fram í tímann hvenær ég á frí og því auðvelt að skipuleggja út frá því“ sagði Róbert. 

Til að kynnast kjarnanum sem býr í hverri manneskju er gott ráð að spyrja um hvað það sé sem gerir manneskjuna glaða. Róbert sagðist njóta þess að vera heima með konu sinni og þremur börnum, en hann upplýsti greinarhöfund um það að hann hefði keppt í sjóstangaveiði í nokkur ár, tók þátt á Íslandsmótum og allt hvað eina, eða alveg þangað til bakvandamál gerðu vart við sig.  „Svo keyptum við hjónin fokhelt hús og höfum verið að byggja það undan farin ár“ sagði skipstjórinn Róbert.

Marcin Grudzien er einnig skipstjóri á Sandfelli SU 75, hann tók við starfinu s.l haust. Marcin var einn af áhafnarmeðlimum sem „fylgdu með“ þegar Loðnuvinnslan keypti bátinn árið 2016.  Marcin kom fyrst til Íslands árið 2000 en fluttist svo til landsins með fjölskylduna árið 2006. „Fyrsta starfið mitt á Íslandi var að vinna í frystihúsi á Breiðdalsvík“ sagði Marcin og bætti við glettnislega „ég er eiginlega gamall Breiðdælingur“. En eftir að hann fór á sjó hefur hann unnið flest störf um borð, kokkur, háseti, vélamaður, stýrimaður og skipstjóri.  Þannig að íslenskt sjómannslíf er honum vel kunnugt.   Marcin, sem er fæddur og uppalinn í Póllandi, talar afar góða íslensku og hefur aðlagast býsna vel.  En hvað er það  sem gleður Marcen í frítímanum? „ Mér finnst gaman að ferðast, fara í ræktina og njóta stunda með fjölskyldunni, en hann á konu og tvö börn.

Auðvitað var ekki hjá því komist að inna skipstjórnarmennina eftir því hvernig þeim þætti að vinna hjá Loðnuvinnslunni og svör þeirra báru að sama brunni. „Það er mjög gott að vinna hjá fyrirtækinu, það er aldrei neitt vesen ef það vantar eitthvað og öll þjónusta við áhöfn og skip er til fyrirmyndar“ svöruðu þeir nánast samhljóma frá sitt hvorum staðnum á landinu. Annar reyndar um borð í Sandfelli við bryggju, bíðandi eftir því að brælunni linni svo hægt væri að fara aftur til sjós, hinn, eins og áður sagði, í Mosfellsbæ.

Sandfell hefur verið heppið með áhafnir, góðir og vandaðir sjómenn hafa vermt plássin þar og ekkert sem bendir til þess að breyting verði þar á.

Marcin og Róberti eru færðar óskir um gott gengi fyrir bát og áhöfn. 

BÓA

Róbert Gils Róbertsson

Marcin Grudzien