Snjólaugur Ingi Halldórsson er ungur maður, fæddur á því herrans ári 1996. Og þrátt fyrir ungan aldur starfar hann sem verkstjóri hjá Loðnuvinnslunni. Hans aðal starfsstöð er frystihúsið þar sem framleitt er úr þorski og ýsu, auk annarra hráefna af minna magni, dýrindis matur fyrir fólk um allan heim.
Snjólaugur hóf störf hjá LVF á unga aldri, sem unglingur fékk hann sumarstörf eins og tíðkaðist á þá daga. Áður heldur en tæknin hélt innreið sína af fullum þunga með tækjum og tólum sem krefjast þess að eldri einstaklingar sinni störfunum. En hann kynntist líka frystihúsinu sem barn þar sem afi hans, Óskar Sigurðsson frá Þingholti, starfaði lengi þar við hin ýmsu störf þó lengst af sem vélamaður. Snjólaugur rifjar upp heimsóknir til afa síns „þar sem ég fékk sjómannakaffi, sem var pínulítið kaffi, heilmikil mjólk og smá sykur“ sagði hann og minningin tældi fram bros. En frá árinu 2018 hefur Snjólaugur verið í fullu starfi hjá Loðnuvinnslunni.
Á síðasta ári varð laus staða verkstjóra og Snjólaugur íhugaði að sækja um en gerði það ekki. Svo var það dag einn að framleiðslustjórinn kallaði á hann og bað hann að finna sig á skrifstofu sinni og bauð honum starfið og þá svaraði Snjólaugur að bragði „það var mikið“ því hann hefur ríka kímnigáfu og er snöggur að hugsa.
Þegar Snjólaugur er inntur eftir því í hverju starfið felist aðallega svarar hann: „ í mannlegum samskiptum fyrst og fremst. Mitt starf er að beina fólki í verkefni eftir því sem þörf krefur og aðstoða og hjálpa þeim sem þess þurfa“. „ Þetta er hálfgert „pepp starf“ bætti hann við.
En störf hins unga verkstjóra eru ekki bundin við frystihúsið, hann fer einnig á aðrar stöðvar þegar unnin er uppsjávarfiskur líkt og síld, loðna og makríll.
Það var að vonum mikið að læra í upphafi, mikilvægt er fyrir manneskju í hans stöðu að þekkja til allra þátta. Vita hvernig vélar og tæki virka og vita til hvaða leiða þarf að leita til þess að leysa hin ýmsu mál sem upp kunna að koma. Á meðan á spjalli greinarhöfundar og Snjólaugs stóð komu allnokkrir til þess að leita hjá honum ráða eða fá úrlausn úr einhverju sem úr þurfti að greiða. Og ávallt stóð hann upp brosandi og tilbúinn til að hlusta og finna lausn.
Undir stjórn Snjólaugs eru að jafnaði tæplega 50 manns. Þau tala mismunandi tungumál og ekki reynist það okkar manni tálmi. Auk þess að tala reiprennandi ensku þá talar hann hrafl í nokkrum öðrum tungumálum eins og pólsku og litháensku.
En hvernig líkar honum starfið? „Mér líkar það afar vel“ svaraði hann, „það er oft mikið að gera og maður er nánast alltaf á einhverskonar bakvakt því það er oft hringt til að spyrja um ýmsa hluti, en það er bara hluti af starfinu“. Og hann tók það líka fram að samstarf við bæði þá einstaklinga sem tróna ofar á skipuritinu og þá sem sitja neðar, væri afskaplega gott. „Það gladdi mig líka hvað það var vel tekið á móti mér í nýju hlutverki“.
Greinarhöfundur hefur fyrir því áreiðanlegar heimildir að fólk hafi almennt glaðst við ráðningu hans því eins og áður segir er hann dagfarsprúður og viðræðugóður með afbrigðum.
En hvað gerir Snjólaugur Ingi þegar hann er ekki í vinnunni? ´“ Ég spjalla við kærustuna mína, hana Alexöndru“, en hún dvelur í Reykjavík svo að skötuhjúin nota tæknina til þess að spjalla saman á meðan þau dvelja sitt á hvoru landshorninu. Þá sagði Snjólaugur líka að hann stundaði hlutabréfaviðskipti. „Ég var á leiðinni í viðskiptafræði þegar mér bauðst verkstjórastarfið“ sagði hann. Svo því námi var skellt á frest en Snjólaugur er klókur og vís og stundar sín hlutabréfaviðskipti sem aukabúgrein og vísast er að þar ráði skynsemin för, því þessi ungi maður hefur mikið af þeim eiginleika til að bera.
„Svo finnst mér afar gaman að ferðast, við Alexandra erum að fara til Japan í lok nóvember“ sagði Snjólaugur Ingi og greinilegt á raddblænum að hann hlakkar til ferðarinnar.
Um leið og Snjólaugi eru færðar óskir um góða ferð, fulla af nýjum ævintýrum er honum þakkað fyrir spjallið og greinarhöfundur gengur út í bjartan daginn þar sem geislar sólarinnar ná enn að skína á hæstu tinda. En þeir sólardagar eru taldir.
BÓA
Snjólaugur Ingi Halldórsson í fullum skrúða verkstjóra.