Bleika slaufan og bleikur október eru alþjóðleg fyrirbæri sem flest Krabbameinsfélög heims standa fyrir. Slaufan er tákn Krabbameinsfélaga í baráttunni gegn krabbameini í konum.
Í dag, 23. október, er bleikur dagur, þá erum við öll hvött til að klæðast bleiku, bera bleiku slaufuna, lýsa skammdegið upp með bleiku ljósi, borða bleikar kökur eða hvað eina annað til þess að sýna konum sem greinst hafa með krabbamein stuðning og samstöðu.
Loðnuvinnslan hefur ekki látið sitt eftir liggja til að minna á baráttuna gegn krabbameini, það blakta bleikir fánar við húna, hárnet þeirra er starfa við fiskvinnsluna eru bleik og latex hanskarnir einnig fallega bleikir. Ekki var látið þar við sitja, heldur blásið til fræðslufundar í kaffistofu frystihússins þar sem Hrefna Eyþórsdóttir formaður og starfsmaður Krabbameinsfélags Austfjarða hélt erindi, bæði á íslensku og ensku. Inntak erindisins var að auka vitund viðstaddra á nokkrum staðreyndum varðandi krabbamein, hvetja til þátttöku í skimunum og kynna starfsemi Krabbameinsfélagsins, þannig að öllum viðstöddum ætti að vera ljóst að þar geta einstaklingar sótt sér stuðning, fræðslu og jafnvel fjárhagslegan stuðning greinist viðkomandi með krabbamein.
Arnfríður Eide Hafþórsdóttir er mannauðs – og öryggisstjóri LVF, sagði hún að það væri mikilvægt fyrir alla að fá þær upplýsingar sem Hrefna deildi með viðstöddum, því að innan fyrirtækisins er hópur fólks af erlendum uppruna sem jafnvel þekkir ekki þá leið sem þarf að feta ef t.a.m finnst hnúður í brjósti, eða hvernig hægt er að komast að í skimun.
Fjöldi fólks kom í kaffistofu frystihússins til að hlýða á Hrefnu flytja sitt erindi og miðið við þá tölulegu staðreynd að ein manneskja af hverjum þremur fá krabbamein einhvern tímann á lífsleiðinni, munu upplýsingarnar sem hún lét viðstöddum í té nýtast vel.
Hrefna var innt eftir því hvort að starfsmaður Krabbameinsfélags Austfjarða færi oft á vinnustaði til að flytja erindi og sagði hún að nokkuð væri um það. „Sérstaklega í bleikum október og bláum mars, en sá mánuður er helgaður baráttu gegn krabbameini í körlum “ svaraði hún og bætti því við að það væri mælanleg aukning á þátttöku í skimunum og vafalaust má þakka það ötulu áminningastarfi.
Boðið var upp á kaffi og meðlæti, kökur með bleiku kremi ásamt öðrum gómsætum bitum til að stinga upp í sig, og einhvern veginn verður allt betra þegar nægur er maturinn.
BÓA
Falleg og góð bleik kaka. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir
Ávextir og kökur. Ljósmynd: AEH
Hér má sjá fallegu bleiku hárnetin og bleika skjáinn hjá Hrefnu. Ljósmynd: AEH