Þann 17.október s.l. var svokallaður Opinn dagur hjá LVF. Þá voru nemendur í 8. – 10. bekk Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar boðin í heimsókn og markmiðið var að kynna fyrir þeim hið fjölbreytta starf sem fer fram hjá fyrirtækinu.
Arnfríður Eide Hafþórsdóttir er mannauðs-og öryggisstjóri hjá Loðnuvinnslunni. Hún sagðist hafa gengið með þessa hugmynd í maganum í all-langan tíma og í góðu samstarfi við Grunnskólann varð hugmyndinni hrint í framkvæmd.
„Þetta voru um 30 ungmenni sem var skipt upp í 6 hópa, hóparnir skiptust svo á að fara á milli deilda í fyrirtækinu þar sem þau fengu kynningu á því hvað er að gerast í hverri deild eða að þau fengu lítið verkefni til að leysa. Með þessu fengu þau að kynnast fiskvinnslu, skrifstofustörfum, vélsmíði, rafvirkjun, starfi í fiskimjölsverksmiðju og sjómennsku. En inn í hverri deild eru síðan mörg fjölbreytt störf sem sum hver áttuðu sig ekki á fyrr en eftir heimsóknina“, sagði Arnfríður aðspurð um hvernig skipulagningu og framkvæmd hefði verið háttað.
Arnfríður sagði enn fremur að það væri von stjórnenda LVF að geta skapað tækifæri til fjölbreyttra starfa fyrir ungmennin þegar þau vaxa úr grasi og með þeim hætti stuðlað að því að sem flestir sjái sér gæfuríka framtíð hér í Búðaþorpi við Fáskrúðsfjörð.
Frá hönd Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar er markmiðið með heimsóknum af þessu tagi alveg skýrt. Sigrún Eva Grétarsdóttir lýsti því vel með eftirfarandi orðum: „Markmiðið með starfskynningum er að efla tengsl skóla og samfélags, auk þess að gefa nemendum áþreifanlega reynslu úr atvinnulífinu. Helstu hlutverk nemendanna á meðan á starfskynningum stendur er að afla sér upplýsinga um starfsemina og taka þátt í þeim verkefnum sem þeim eru falin“.
Garðar Svavarsson framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar var mjög ánægður með hvernig til tókst og orðaði það skilmerkilega með þessum orðum: „Það sem skiptir mig máli er að ná sterkri tengingu við krakkana sem eru að alast upp í samfélaginu okkar. Þau viti fyrir hvað fyrirtækið stendur, hverskonar starfsemi fer þar fram og hvaða tækifæri standa þeim til boða í framtíðinni ef þau hafa áhuga á að starfa hjá okkur”.
Þegar kynningum og heimsóknum á hinar mismunandi deildir lauk, var hópnum boðið í Wathneshúsið í pizzu, gos og sælgæti. Sannarleg veisla að loknum góðum vinnudegi hjá öllum viðkomandi. Nemendur voru sæl og glöð með daginn og komu jafnvel með góðar hugmyndir um hvernig mætti gera húsakynni og fyrirtækið meira spennandi. Nemendur stóðu sig vel, þau voru kurteis og áhugsöm.
Starfsfólk Loðnuvinnslunnar sýndi líka hversu rík þau eru af gæsku og gleði og tóku afar vel á móti nemendunum, gáfu sér tíma til þess að sýna handtök og útskýra eðli starfa. Þannig hefur menntun farið fram um aldir alda, þeir sem kunna -kenna þeim sem ekki kunna.
Og þegar Arnfríður var innt eftir því hvort að Opinn dagur væri verkefni sem vert væri að halda aftur svaraði hún að bragði: „Ég vona innilega að þetta verkefni sé komið til að vera og að í framtíðinni verði þetta jafnvel heill dagur þar sem hægt er að taka yfirferð á öllum störfum og deildum fyrirtækisins. Ég horfi svo sannarlega með björtum augum til framtíðar og er handviss um að í þessum hópi leynist framtíðarstarfsfólk fyrir Loðnuvinnsluna“.
Já, nám fer fram með því að prófa, rannsaka, horfa og hlusta. Hvort heldur setið er á skólabekk eða úti í atvinnulífinu. Það er mikilvægt að kunna að sækja sér þekkingu úr bókum og tölvum, en það er jafn mikilvægt að læra handtök og framkvæmd hinna ýmsu starfa. Það eykur möguleika einstaklings á að finna sína hillu í þessu blessaða, dýrmæta lífi.
BÓA
Garðar Svavarsson framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar útkskýrir fyrir áhugasömum nemendum. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir.