„Sjómannslíf, sjómannslíf, draumur hins djarfa manns“ segir í dægurlagatexta eftir Loft Guðmundsson.  Ekki veit greinarhöfundur hvort að Örn Rafnsson, fráfarandi skipstjóri á Sandfelli SU 75, sé mjög djarfur maður, en heiðarlegur, hlýr og duglegur er hÖann. En hitt er staðreynd að sem ungur drengur dreymdi hann ekkert sérstaklega um að verða sjómaður heldur var það meira tilviljun sem réð því  að hann endaði á að gera sjómennsku að ævistarfi.

„Árið 1974, þegar ég var 16 ára gamall, sá móðir mín auglýsingu í blaði um að það vantaði mann á bát í Grindavík, hún hringdi og útvegaði mér starfið. Svo skutlaði hún mér á BSÍ og ég fór á sjóinn“ rifjaði Örn upp þegar hann var inntur eftir því hvernig á það hefði æxlast að hann fór á sjóinn. Á allri starfsævinni stundaði Örn vinnu í landi í eitt og hálft ár, annars var það sjómennskan.

Fyrir u.þ.b. átta árum keypti Loðnuvinnslan bát af Stakkavík í Grindavík sem þá bar nafnið Óli á Stað. Það lán fylgdi kaupunum að áhöfnin fylgdi með.  „Við vorum keyptir með“ sagði Örn brosandi  og bætti því við sér hefði þótt frábært hversu vel var tekið á móti áhöfninni og svo væri afar gott að stunda sjóinn fyri austan.

Og nú er Örn hættur að vinna, hann er búinn að leggja sjóstakkinn á hilluna, ef svo má að orði komast. Þau hjónin hafa flutt úr Grindavík eftir að hafa búið það síðan 1977 og hafa komið sér fyrir í Hveragerði.  Því lá beinast við að spyrja sjómanninn hvernig það væri að búa á stað þar sem ekki sést til sjávar eftir að hafa varið eins miklum tíma og raun ber vitni á sjó og við sjávarsíðuna.  „Það er óneitanlega svolítið skrýtið“ svaraði Örn, „ég sakna þess svolítið að geta ekki fengið mér göngu niður á bryggju, því er ekki að neita“.  En nú er runnin upp sá tími á lífsleið Arnar að geta ráðstafað tíma sínum eftir því sem hann langar.  „Ég er áhugamaður um veiðar, skotveiðar og stangveiðar, og ég ætla að dunda mér við slíka iðju“ sagði Örn. 

Örn bað fyrir kveðjur til samstarfsfólk hjá Loðnuvinnslunni og allra bestu þakkir fyrir frábært samstarf og sagði einnig að það hefði verið afskaplega ánægjuleg samvinna milli útgerðarinnar og áhafnar, auk allra þeirra sem komu að því að þjónusta Sandfell. „Svo vona ég að ég eigi eftir að hitta allt þetta góða fólk aftur“ sagði Örn að lokum.

Loðnuvinnslan þakkar Erni fyrir hans góðu og óeigingjörnu störf í þágu fyrirtækisins og óskar honum og fjölskyldu hans velfarnaðar, gæfu og gengis.

BÓA

Örn Rafnsson fráfarandi skipstjóri á Sandfelli SU 75.