Öryggismál eru mikilvægur málaflokkur í öllu samhengi mannlegs lífs. Við viljum finna til öryggis jafnt heima sem að heiman. Margt fólk stundar störf utan heimilis sem geta verið hættuleg í einhverjum skilningi, þarf ekki annað en benda á umferð á vegum í því samhengi. Einstaka starf eða iðn er í eðli sínu hættuleg en hættan minnkar í sama hlutfalli og öryggi eykst og hjá Loðnuvinnslunni er þetta einn mikilvægasti þáttur innra starfs, öryggi starfsfólks, það markmið að allir komi heilir heim að loknum vinnu degi… alltaf.  

Sjómenn þurfa að fara í gegn um Slysavarnaskóla sjómanna til þess að fá full réttindi til þess að stunda sjómennsku. Einn þáttur í því námi er reykköfun og er hún kennd í skipi skólans sem ber hið fallega nafn Sæbjörg.  En eitt er að ganga blindandi í gegn um skólaskip eða í gegn um skipið sem er hinn raunverulegi vinnustaður sjómanns.

Þann 2.október s.l. var haldið viðamikil eldvarnar og reykköfunaræfing um borð í Hoffelli og Ljósafelli.  Var æfingin haldin í samstarfi við Slökkvilið Fjarðabyggðar.  Arnfríður Eide Hafþórsdóttir er mannauðs-og öryggisstjóri hjá Loðnuvinnslunni og hafði veg og vanda af skipulagi og framkvæmd. „Þetta var gríðarlega góð æfing og við lærðum svo margt“ sagði Arnfríður og bætti við: „það er mikilvægt að taka svona æfingar og fara ofan í saumana á öllu sem varðar búnaðinn og verkferla“. 

Æfingin hófst með því að það kom útkall um að eldur væri í vélarrúmi. Þá byrjar áhöfnin á því að safnast saman í brúnni og fara yfir hlutverk hvers og eins, sem eru mismunandi eftir því hvaða starfi viðkomandi gegnir um borð. Þá þurfa þeir einstaklingar, sem hafa það verkefni með höndum, að klæða sig í reykköfunargalla, setja á sig grímur og súrefniskút.  Ávallt fara í það minnsta tveir saman, annar leiðir og hinn kemur á eftir og heldur í þann sem á undan er með ákveðnum hætti. Verkefnið var að fara niður í vélarrúm og skrúfa fyrir ákveðinn krana.  Þegar þessi orð eru lesin virðist verkefnið ekki vera svo flókið en raunin er önnur.  Reykkafararnir sjá ekkert, það er engu líkara en að sjálf nóttin hafi tekið sér bólfestu í augum þeirra því reykurinn er svartur sem bik, þó svo að hann sé aðeins innan á grímunum því sem betur fer var ekki um raunverulegan reyk að ræða. En það þarf að feta sig niður þrönga stiga, finna réttu leiðina og leysa verkefnið.

„Æfingin var tekin upp svo að viðkomandi aðilar geti skoðað það sem betur má fara, að vonum gekk svolítið betur hjá þeim mönnum sem starfa að jafnaði í vélarrúminu,  í þeirra tilvikum eru hreyfingar og ganga að einhverju leiti í vöðvaminninu, en hjá hinum sem ekki starfa þar að staðaldri vildu línur festast í krönum og rörum og þess háttar“ sagði Arnfríður og gat þess einnig að þátttakendurnir í æfingunni hefðu allir haft orð á því hvað það var gagnlegt og lærdómsríkt að sjá hvernig þeir hreyfðu sig um í myrkrinu.

Arnfríður sagði einnig að það sem væri ekki síður mikilvægt í við æfingar af þessu tagi væri að fara yfir búnaðinn. „Enda kom það á daginn að það þarf að endurnýja hluta af þessum búnaði“ sagði öryggisstjórinn með festu.  Þá velti greinarhöfundur því fyrir sér hvort að ekki væri svolítið skrítið að festa kaup á búnaði fyrir himinháar upphæðir í þeirri von að það þurfi aldrei að nota hann og orðaði þessar vangaveltur sínar við Arnfríði sem svaraði um hæl: „ jú, kannski svolítið skrítið í þessu samhengi, en aldrei nein spurning. Öryggi og mannslíf verða aldrei metin til fjár“.

Arnfríður hafði orð því hversu fagmannlega fulltrúar Slökkviliðs Fjarðabyggðar hefðu komið fram á æfingunni og einnig að þeir hefðu boðið fram aðstöðu sem Slökkviliðið býr yfir til æfinga á reykköfun til áframhaldandi æfinga fyrir starfsfólk Loðnuvinnslunnar. „Þetta var fyrsta skrefið í æfingum af þessu tagi, það munu verða sambærilegar æfingar fyrir allar aðrar deildir fyrirtækisins í fyllingu tímans“.

Já, lífið er ekki bara saltfiskur eins og fólk sagði gjarnan hérna áður fyrr.  Nei, aldeilis ekki. Það er fullt af óvæntum uppákomum sem margar hverjar koma með skelli. Því er afar mikilvægt að gera allt sem í mannlegu valdi stendur til að koma í veg fyrir slíkt. Einn þáttur í því er að kunna að bregðast við og hafa þau tæki og tól sem til þarf. Þar er Loðnuvinnslan og mannauðs-og öryggisstjórinn Arnfríður Eide Hafþórsdóttir að vinna gott verk.

BÓA

Mannauðs-og öryggisstjórinn Arnfríður Eide Hafþórsdóttir. Ljósmynd: Wilmer Alexander Fabian.

Um borð í Ljósafellinu. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir.

Það þarf að útskýra. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir.

Og það þarf að segja frá. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir.

Um borð í Hoffelli. Ljósmynd: Högni Páll Harðarson.