Ungum manneskjum í dag standa margar dyr opnar þegar kemur að því að kjósa sér starfsferil. Því er mikilvægt fyrir þessar ungu manneskjur að kynna sér hvaða möguleikar eru til staðar og hvernig hin ýmsu störf eru í raun og veru. Því er farsælast að kynna sér málin frá fyrstu hendi. Fara á vinnustaði, fá fræðslu og kynningu og jafnvel upplifun á því sem þar er haft fyrir stafni. Verkefni af þessu tagi er í gangi í Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar um þessar mundir.  Nemendur 10.bekkjar fara út í fyrirtæki og stofnanir, fá kynningar og taka jafnvel þátt í starfinu ef það er þess eðlis að það sé hægt.

Sigrún Eva Grétarsdóttir er náms-og starfsráðgjafi og í hennar höndum er skipulag og framkvæmd fyrir hönd Grunnskólans. Sigrún var innt eftir tilgangi og markmiði verkefnisins. „Starfskynningar eru hluti af náms-og starfsfræðslu hjá 10.bekk í vetur. Markmiðið með kynningunum er að efla tengsl skóla og samfélags, auk þess að gefa nemendum áþreifanlega reynslu úr atvinnulífinu“ svaraði Sigrún Eva og bætti við „ Helstu hlutverk nemenda á meðan á starfskynningum stendur er að afla sér upplýsinga um starfsemina og að taka þátt í þeim verkefnum sem þeim eru falin á hverjum vinnustað. Þau útbúa svo stutta kynningu og gera sjálfsmat í lokin. Þetta er gert vegna þess að tengsl eru við aukinn námsáhuga og skilning á gildi náms fyrir eigin framtíð. Allt helst svo í hendur við markvissari ákvarðanatöku og minna brottfall seinna. Það að fá tækifæri til að hitta og ræða við einhvern sem er starfandi úti á vinnumarkaðnum getur haft mikið gildi fyrir starfsþekkingu ungs fólks. Kynni við fólk sem starfar í ákveðnum störfum getur bæði vakið áhuga og hvatt nemendur til að íhuga alls kyns störf sem þau hafa aldrei hugsað um eða jafnvel heyrt um áður. Eða þau átta sig á að ákveðin störf höfði alls ekki til þeirra sem er líka allt í lagi“. 

Á dögunum komu þrír ungir og áhugsamir piltar í heimsókn til Loðnuvinnslunnar og þeir höfðu sérstakan áhuga á útgerðinni. Og þar sem LVF er fyrirtæki með margvíslega starfsemi var auðvelt að verða við þeirri ósk.  Daginn hófu gestirnir á spjalli við Kjartan Reynisson útgerðarstjóra sem fræddi þá um þau skip og báta sem fyrirtækið gerir út og hin mismunandi veiðarfæri sem þau notast við, því sú tíð að allur fiskur var veiddur á handfæri með krók á endanum er löngu liðin. Nú eru brúkuð mismunandi veiðafæri fyrir mismunandi skip og báta og fyrir mismunandi tegundir sjávarfangs sem veiða skal. Svo þar var margt að læra.

Að lokinni þeirri fræðslu var haldið til hafnar. Svo heppilega vildi til að Ljósafell og Hoffell voru við bryggju þannig að förinni var heitið um borð. Í brúnni á Ljósafelli tók Kristján Gísli skipstjóri á móti nemendunum og leiddi þá í allan sannleikann um lífið um borð, sýndi þeim hvernig öll tæki og tól í brúnni virka og hvaða tilgangi þau gegna. Þá var farið um allt skip og endað í vélarrúminu þar sem vélstjórarnir Þorvaldur og Pétur tók á móti þeim og sögðu þeim í hverju starf vélstjóra er falið auk þess að sýna þeim vélarnar og búnaðinn sem þar leynist.

Eftir skemmtilega og fræðandi heimsókn í Ljósafell, beið Hoffell, vaggandi mjúklega við bryggjuna og þar tók á móti nemendunum áhugasömu Sigurður skipstjóri, Högni Páll og Rósmundur vélstjórar og Baldur matsveinn. Þar sem Hoffell og Ljósafell stunda mismunandi veiðar voru aðrir hlutir og búnaður sem piltarnir voru fræddir um í Hoffelli. Þar var að vonum líka margt að sjá og skoða.

„Starfsfólk LVF hefur tekið einstaklega vel á móti nemendum skólans og verið liðlegt að fræða þau og leyfa þeim að taka þátt eftir því sem við á. Það er gríðarlega dýrmætt fyrir okkur og vonandi opnar hug nemenda varðandi störf hér á staðnum“ sagði Sigrún Eva þegar spurt var hvernig tekið væri á móti unglingunum.

Nokkuð öruggt má teljast  að upplifunin og fræðslan, sem  nemendurnir fengu hjá sjómönnunum, auk þess að sjá með eigin augum hvernig vinnuumhverfi þeirra er háttað, er afar mikilvægt í reynslubanka þessara ungu manna sem munu í náinni framtíð kjósa sér starfsvettvang. Ef til vill verður sjómennska fyrir valinu. Hver veit.

BÓA

Nemendur á spjalli við Kjartan Reynisson útgerðarstjóra. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Mjög áhugasamir á svip í vélarrúminu á Ljósafelli. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir.

Þeir eru flottir ungu mennirnir Smári Týr, Björn og Kristófer á spjalli við Högna Pál og Sigurð um borð í Hoffelli. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir