Það er fallegur dagur við Fáskrúðsfjörð þegar greinarhöfundur ber að dyrum á fallegu húsi sem stendur ofarlega í Búðaþorpi. Ástæða þess að einmitt sé knúið dyra á þessu tiltekna húsi er fólkið sem í því býr; Fanney Linda Kristinsdóttir og Árni Sæbjörn Ólason.

Þau Linda og Árni hafa starfað lengi hjá Loðnuvinnslunni, samtals hátt í eina öld. Það er langur tími hjá sama fyrirtæki.

Árni og Linda kynntust ung, árið 1974 skrapp ungur Eskfirðingur yfir á Fáskrúðsfjörð til þess að fara á dansleik í Skrúð. Og á þessum dansleik um miðbik áttunda áratugarins felldu þau hugi hvors til annars og gera það enn.  Þremur árum síðar giftu þau sig í Kolfreyjustaðakirkju og rifja það upp með værðarlegri gleði  og segja að það hafi ekki gengið snurðulaust fyrir sig. „Séra Þorleifur, sem  lengi var prestur á Kolfreyjustað, var varaþingmaður og var á þingi en sagðist mundu vera kominn tímanlega fyrir athöfnina sem fara átti fram þann 11.desember 1977, en þann dag var alger svarta þoka svo ferðin sóttist hægt hjá klerki þannig að endirinn var sá að hjónavígslan fór fram kl.22.00“ .  „Hann lagði sig í stórhættu að aka við þessar aðstæður, en honum var í mun að standa við skuldbindingar sínar“ bættu þau við og enn má greina að þau eru þakklát prestinum.

Árni hóf störf hjá Loðnuvinnslunni (sem í þá daga var Kaupfélagið) 1.janúar 1977. Þá fór hann í sinn fyrsta túr á Ljósafellinu. Og þar var hann í tuttugu ár. „Það var rosalega gaman á sjónum“ sagði Árni.  Hann sagði að mannskapurinn um borð hafi verið frábær og það hafi alltaf eitthvað skemmtilegt verið í gangi. „ Það var vatnsslagur á dekkinu og einhvern tímann var búið að hnýta sængina í marga hnúta og skella henni í frysti, það tók langan tíma að fá hana til að verða  nothæfa á ný“ segir Árni og hlær dátt að minningunni. Þegar fiskmjölsverksmiðjan tók til starfa flutti Árni sig þangað og hefur verið það allar götur síðan.

Linda hóf ung störf í frystihúsinu og var þar í rúman áratug. Þá var auglýst laust starf á skrifstofu Kaupfélagsins og hún hripaði niður á blaðsnifsi nafnið sitt og einfaldlega „sæki um starf á skrifstofu“, braut blaðið saman og bað Árna að koma því til Gísla Jónatanssonar þáverandi kaupfélagsstjóra. Árni hitti á Gísla og renndi til hans bréfmiðanum og eftir það starfaði Linda í 12.376 daga á skrifstofunni.  Hvernig veistu töluna á dögum þínum á skrifstofunni?  Spurningin var óumflúin. „Það var einn vinnufélagi minn sem lagði á sig að finna það út og það var skrifað á tertu sem samstarfsfólk mitt á skrifstofunni bauð upp á þegar ég hætti“ sagði Linda brosandi.

„Mér fannst mjög gaman að vinna við bókhald“ sagði Linda og bætti við að það hefði á því tímabili sem hún starfaði verið skipt um tölvukerfi nokkrum sinnum og þá hefði verið gaman og þroskandi að læra eitthvað nýtt.

Linda og Árni hættu að vinna 1.júní s.l. Bæði fengu þau góðar kveðjur og óskir frá sínu nánasta samstarfsfólki og eru sammála um að þeim hafi ávallt liðið vel í starfi og það hafi verið gott að vinna hjá Loðnuvinnslunni.  Þau eru hraust og spræk og hlakka til framtíðarinnar.  Og þegar þau eru innt eftir því hvað þau sjái fyrir sér að felist í framtíð þar sem allur tími er til eigin nota, ef svo má að orði komast, stendur ekki á svari: „ Við höfum unun af því að ferðast á húsbílnum og fara í útilegur og ætlum að vera dugleg að gera það, við sjáum fyrir okkur að geta farið út og suður ef okkur langar með litlum fyrirvara hvort heldur það er vetur eða sumar, svo hlökkum við mikið til að njóta meiri samvista við barnabörnin“.  Svo er spjallað dágóða stund um áhugamál sem þau hjónin gætu hugsanlega tekið upp. Það er allt frá snjómokstri til sjónvarpsgláps, og mögulega  golf, rennismíði, krossgátur og kaffidrykkja. Allt saman góð og skemmtileg iðja. En fyrst þarf að steypa bílastæðið en það mun vera fyrsta verkefni hjónanna Lindu og Árna á eftirlaunum.

Loðnuvinnslan þakkar þeim þeirra góðu störf og þeirra tryggð við fyrirtækið og óskar þeim velfarnaðar.

BÓA

Linda og Árni, njóta sólardagsins.

Kakan sem vinnufélagar Lindu á skrifstofu LVF buðu henni við starfslokin. Þar má sjá gagnlegar upplýsingar eins og eftirlætis fótboltaklúbb og fjölda daga á skrifstofunni.