Það er indælt að sjá gróðurinn vakna til lífsins og fylgjast með fuglum búa sér hreiður. Vorið góða grænt og hlýtt bíður okkur mannfólkinu að upplifa þessi undur aftur og aftur og það er fallegt að verða vitni að nýju upphafi. 

Sigurjón Jónsson fráfarandi verkstjóri í frystihúsi Loðnuvinnslunnar hefur kvatt fyrirtækið og snúið sér að nýju upphafi suður með sjó. Hann ákvað að kominn væri tími á starfslok.

Sigurjón og kona hans, Margrét Jensína Magnúsdóttir fluttu búferlum á Fáskrúðsfjörð fyrir u.þ.b. sjö árum síðan. Tildrögin að þeim flutningi voru með þeim hætti að þau voru orðin þreytt á þáverandi störfum og langaði að breyta til. Sigurjón tók að sér starf verkstjóra í frystihúsinu og sinnti því stafi að einurð, áhuga og einlægni allt fram á nýliðna vordaga.

„Þessi tími  fyrir austan var svo fljótur að líða“ sagði Sigurjón sem var að dunda í garðinum við hús þeirra hjóna í Njarðvík þegar greinarhöfundur náði tali af honum.  „Ég var mjög ánægður í vinnunni og sakna vinnufélagana“ bætti hann við.  Þegar Sigurjón og Margrét fluttu austur tóku þau með sér golfsettin sín og hugðust koma þeim í not en sú varð nú ekki raunin.  „Ég tók það aldrei úr geymslunni“ sagði hann og bætti því við annirnar í starfinu hefðu ekki gefið mikinn tíma til tómstunda. Langir vinnudagar hafa svolítið einkennt störf Sigurjóns hin síðari ár.

En nú hefur hann hug á að endurnýja kynnin við áhugamálin, hann er frímúrari og hlakkar til að taka upp þráðinn í því starfi í haust. „ Það er líka á dagskránni að fara að spila Bridge aftur og leika golf“ sagði Sigurjón og það mátti heyra á raddblænum að hann hlakkaði til að eiga allan sinn tíma  sjálfur og getað ráðstafað honum að vild.

Sigurjóni líður vel í garðinum, að dunda við verkin þar er endurnærandi og afslappandi. „Þá hef ég  tekið upp þann gamla sið minn að rölta um tína nokkur mávsegg og það kann ég að meta“ sagði Sigurjón og bætti því við að þau hjónin nýttu eggin til baksturs og eins til átu, „þau eru afbragðsgóð“.

Sigurjón og Margrét eru á leið austur til þess að taka þátt í sjómannadagsskemmtun sem verður á vegum Starfsmannafélags Loðnuvinnslunnar. Sigurjón sagðist hlakka til að koma og hitta alla sína góðu samstarfsfélaga og hann sagði jafnframt að það sem stæði upp úr dvöl sinni hér á Búðum við Fáskrúðsfjörð væri viðkynning við fólkið. „Ég, og við hjónin bæði, höfum kynnst svo mörgum stórkostlegum manneskjum, við höfum eignast vináttu margra, vináttu sem mun lifa þó svo við búum ekki lengur á Fáskrúðsfirði“ sagði Sigurjón Jónsson.

Sigurjóni eru þökkuð hans góðu störf. Þakkir fær hann líka fyrir framúrskarandi viðmót, og þá virðingu sem hann sýndi samstarfsfólki í orðum og gjörðum. 

Sigurjóni og Margréti eru færðar óskir um gæfu og góða heilsu.

BÓA

Sigurjón Jónsson og Margrét J. Magnúsdóttir