Á aðalfundum Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga og Loðnuvinnslunnar, sem haldnir voru

 í Wathnessjóhúsi  föstudaginn 17.maí 2024,  afhentu félögin styrki  til stofnanna og félagasamtaka.

Á stundum er sagt að það endurspegli hvert samfélag hvernig búið er að yngstu og elstu íbúum þess. Kaupfélagið og Loðnuvinnslan hafa tekið höndum saman um kaup á 10 sjúkrarúmum, auk tilheyrandi búnaðar, og færa dvalar og hjúkrunarheimilinu Uppsölum þau að gjöf.  Er þetta afar rausnarlega gjöf, ein af þeim sem ekki verður metin til fjár því að viðtakendur, þ.e. notendur gjafarinnar, eiga aðeins það besta skilið eftir þeirra framlag til samfélagsins alls. Eru þessi rúm hönnuð með þægindi í huga fyrir þá sem í þeim hvíla en einnig fyrir starfsfólk sem hlúir að liggjandi einstaklingum.  Svava Ingibjörg Sveinbjörnsdóttir er framkvæmdastjóri fjármála hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands og sagði hún að gjöfin væri ómetanleg. „Það er svo mikilvægt að fá slíkan stuðning frá samfélaginu líkt og hér hefur átt sér stað með þessari gjöf“ sagði Svava og bætti því við að það hefði komið sér og öðrum stjórnendum HSA skemmtilega á óvart að frumkvæðið að því að sækja um styrk til kaupa á rúmum hafi komið frá tveimur starfskonum á Uppsölum, annars vegar Hrefnu Eyþórsdóttur sjúkraþjálfara og hins vegar Bjarnheiði Pálsdóttur starfskona í aðhlynningu.  „Við hjá HSA, starfsfólk og íbúar á Uppsölum þökkum kærlega fyrir“ sagði Svava Ingibjörg.

Félagsskapur um Franska daga hlaut í styrk 2 milljónir króna frá Kaupfélaginu og 2 milljónir frá Loðnuvinnslunni. Um er að ræða félagsskap sem er framkvæmdaraðili fyrir bæjarhátíðinni Franskir dagar sem haldin ár hvert í lok júlí á Fáskrúðsfirði.

María Ósk Óskarsdóttir Snædal tók við styrkjunum fyrir hönd Franskra daga og sagði María aðspurð að án styrkjanna frá Kaupfélaginu og Loðnuvinnslunni væru Franskir dagar ekki svipur hjá sjón. „Þessir peningar gera okkur kleift að bjóða alla barnadagskránna án endurgjalds sem munar miklu fyrir barnafjölskyldur“ bætti María Ósk við.

Það kostar heilmikið  að halda glæsilega bæjarhátíð sem býður upp á dagskrá fyrir alla aldurshópa og því koma þessir fjármunir sér vel og þeim verður vel verið okkur öllum til ánægju.

Hollvinasamtök Skrúðs fengu 1 milljón til áframhaldandi uppbyggingar félagsheimilisins Skrúðs.  Eins og flestum er kunnugt er Skrúður í eigu sveitafélagsins en Hollvinasamtökin hafa komið að viðhaldi og endurreisn hússins með miklum ágætum.  Á milli eigenda og samtakanna er mikið og gott samstaf um áætlun og framkvæmdir og hafa Hollvinasamtökin fulla stjórn á því í hvað þeir fjármunir fara sem samtökin ráða yfir. 

Kaupfélagið hefur verið dyggur stuðningaðili Hollvinasamtaka Skrúðs og hafa þeir fjámunir aðallega farið í að kaupa alls konar búnað sem nýtist bæjarbúum vel þegar nota skal húsið til hinna ýmsu mannfagnaða. Má þar nefna búnað í eldhús, myndvarpa, hljóðkerfi og fleira í þeim dúr, auk glugga sem samtökin keyptu en sveitafélagið sá um að koma á sinn stað.

Smári Júlíusson er formaður Hollvinasamtaka Skrúðs og sagði hann að styrkurinn væri afar vel þeginn og kæmi sér vel. Af nægu er að taka þegar kemur að viðhaldi og uppbyggingu byggingar af þeirri stærðargráðu sem Skrúður er.

Loðnuvinnslan afhenti björgunarsveitinni Geisla  1 milljón króna til styrktar sinni starfsemi. Það er hverju samfélagi mikilvægt að hafa innan sinna raða félagsskap sem er tilbúin til þess að láta til sín taka þegar slys, hamfarir eða annars konar erfiðleikar bera að höndum . Loðnuvinnslan hefur í gegn um tíðina verið dyggur og trúr stuðningsaðili Geisla og á því er engin breyting.

„Svona styrkur er mjög þýðingarmikill fyrir t.d. okkar rekstraröryggi, þar sem við vitum aldrei hve stórt kallið verður, ef það kemur. Menntun okkar, og viðhald hennar kostar líka, auk þess sem við reynum líka að leggja fyrir svo við getum endurnýjað og bætt tæki okkar. Við eigum mjög öflugan tækjakost, sérstaklega fyrir sjóbjörgun og Loðnuvinnslan á alveg sinn þátt í því að þetta sé til á staðnum“ sagði Grétar Helgi Geirsson formaður Geisla.

 Þá lætur LVF 10 milljónir króna af hendi rakna til starfsmannafélags Loðnuvinnslunnar til styrktar því góða starfi sem þar fer fram.

Starfsmannafélag LVF er ötult félag sem stendur fyrir margvíslegum ferðum og uppákomum fyrir sitt fólk. Má þar nefna jólaskemmtun, sjómannadagsskemmtun, auk ferðalaga innan lands sem utan.

Kristín Hanna Hauksdóttir tók við styrknum fyrir hönd starfsmannafélagsins og sagði hún að félagið kynni afar vel að meta svo myndarlegan styrk. „Við þökkum kærlega fyrir okkur og hlökkum til að nýta fjármunina til skemmtunar og dægrastyttingar fyrir félagsfólk“ sagði Kristín Hanna.   

Ungmennafélagið Leiknir fékk afhentar 18 milljónir króna til íþrótta og æskulýðsstarfa.  Vilberg Marinó Jónsson er formaður Leiknis og sagði hann að þessi styrkur skipti sköpum fyrir félagið. “ Ekki aðeins leggur þessi upphæð þungt lóð á vogaskálarnar við rekstur félagsins, en innan þess eru margar deildir, heldur gefur okkur kost á því að stofna nýjar deildir ef  sú staða kemur upp” sagði Vilberg er hann var inntur eftir viðbrögðum við styrknum.  Þá gefur upphæð sem þessi félaginu mögulegt að stilla æfingagjöldum í hóf í þeim tilgangi að jafna möguleika barna og ungmenna til íþróttaiðkunar því sannarlega eru aðstæður heimila misjafnar. “Þetta er mjög rausnarlegur styrkur og við erum afar þakklát Loðnuvinnslunni” sagði Vilberg Marinó.

Að samanlögðu eru styrkirnir sem Loðnuvinnslan hf og Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga veittu að þessu sinni 39 milljónir króna.

Eftir þessa rausnarlegu útdeilanir styrkja frá LVF og KFFB komu þessi fleygu orð upp í hugann og við hæfi að gera þau að lokaorðum.

Gefðu alltaf án þess að muna og þiggðu alltaf án þess að gleyma.

BÓA

Efri röð frá vinstri: Vilberg Marinó Jónasson sem tók við strykt fyrir Ungmennafélagið Leikni, Elvar Óskarsson stjórnarformaður Loðnuvinnslunnar, Gretar Helgi Geirsson sem tók við styrk fyrir björgunarsveitina Geisla, Garðar Svavarsson framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar og Kaupfélagastjóri. Neðri röð frá vinstri: Steinn Jónasson stjórnarformaður Kaupfélagsins, Kristín Hanna Hauksdóttir sem tók við styrk fyrir hönd Starfsmannafélgas LVF, María Ósk Óskarsdóttir Snædal sem tók við styrk fyrir hönd félags um Franska daga, Jóna Björg Jónsdóttir sem tók við styrk fyrir Hollvinasamtök Skrúðs og Bjarnheiður Pálsdóttir sem tók við styrk fyrir hönd dvalar-og hjúkrunarheimilisins Uppsala.