Það er hreint og snyrtilegt í kaffistofunni í vélaverkstæði Loðnuvinnslunnar og útsýnið úr glugganum sem vísar í suður er ekki af verri endanum.
Ingimar Óskarsson er verkstjóri á vélaverkstæðinu. Hann er fæddur á því herrans ári 1976, aðeins ellefu dögum eftir að lagið Dancing Queen með hljómsveitinni ABBA kom út í Svíþjóð. Ingimar er yngstur fjögurra systkina og alinn upp í Búðaþorpi við Fáskrúðsfjörð. Hann var tápmikill drengur og lék sér úti heilu daganna, ýmist í fjörunni eða fjallinu og hann var mikið á hjóli út um allar koppagrundir. „Ég var líka alltaf í kring um vélar og tæki og fékk snemma áhuga á slíku“ segir Ingimar.
Ingimar er bíladellukarl og hefur átt allnokkra bíla í gegnum tíðina en hefur hin síðari ár reynt að „halda í sér“ eins og hann sagði sjálfur brosandi og bætti við að svo virtist sem áhugi á bílum gengi í erfðir því að sonur hans væri núna ötull að benda föður sínum á áhugaverða bíla.
Ingimar er giftur Þórhildi Elfu Stefánsdóttur og eiga þau tvö börn. Barnabörnin eru tveir drengir og sá þriðji á leiðinni. Brúnirnar lyftast ofurlítið og röddin verður mildari þegar Ingimar tala um afadrengina sína enda tengslin sterk þar sem dóttir þeirra hjóna hefur búið hjá þeim með drengina sína um tíma á meðan unga fjölskyldan endurbyggði og skipulagði sitt eigið hús. „Það er æðislegt að vera afi“ sagði Ingimar.
Hann fór snemma að taka þátt í atvinnulífinu og starfaði hjá föður sínum á dekkjaverkstæði um nokkurra ára skeið og ók flutningabíl hjá Flytjanda í fjögur sumur. En fyrir tólf árum hóf Ingimar störf á vélaverkstæði LVF og starfaði þar sem almennur starfsmaður þar til fyrir tæpum tveimur árum að þáverandi verkstjóri lét af störfum og starfið var auglýst laust til umsóknar. Og skemmst er frá því að segja að okkar maður fékk starfið og sinnir því í dag.
„Mér líður mjög vel í vinnunni“ svaraði Ingimar aðspurður, „það er oft mjög krefjandi og oft mikið að gera en ég er að vinna með frábæru fólki“ sagði Ingimar. Það eru tólf starfsmenn á vélaverkstæðinu og þar ríkir góður andi. Eðli starfsins gerir það að verkum að vélsmiðjukarlarnir starfa með fólki á öllum deildum innan Loðnuvinnslunnar. Það þarf að gera við, halda í horfi, smyrja og styrkja og skipta um íhluti út um allt. „Það er alls staðar frábært fólk og ekkert vesen“ sagði verkstjórinn.
Þegar Ingimar að spurður hvað honum þætti skemmtilegast að gera í vinnunni, hugsaði hann sig um svolitla stund og svaraði: „Ætli það sé ekki að vera einhversstaðar einn og sjóða“. Á meðan á spjalli greinahöfundar og Ingimars stóð hringdi síminn hans nokkrum sinnum. Voru þetta vinnutengd símtöl þar sem vinnufélagar voru að fá leiðbeiningar eða álit á einhverju sem þeir voru að vinna að. Og ávallt svaraði Ingimar með sömu rólegu röddinni og gaf greinagóð svör. En skyldi maðurinn hafa tíma til að hlusta á tónlist eða sögur þegar hann stendur einn og sýður og síminn er hljóður? „Ég hlusta þá frekar á tónlist heldur en sögu“ segir Ingimar og bætir brosandi við að hann týni alltaf þræðinum í sögum, „þetta er einhver brestur“ sagði hann rólega og staðfesti þar með mennsku sína því öll höfum við mannfólkið einhverja bresti.
Vélaverkstæðið tekur þátt í verkefni með Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar þar sem nemendum gefst kostur á að „mæta til vinnu“ á vélaverkstæðið og fá þar verkefni við hæfi. „Þau koma þrjá fimmtudaga í tvær klukkustundir í senn og það er virkilega gaman að fá þau“ sagði Ingimar .
En stundum á verkstjórinn frí og hvað finnst honum gaman að gera þá? „Að ferðast, innanlands og utan“ svaraði hann um hæl og sagði að þau hjónin nytu þess að ferðast og nýttu tækifæri þegar tími leyfði og að þau hefðu einnig tekið þátt í ferðum á vegum starfsmannafélags Loðnuvinnslunnar sem hafa verið hver annarri betri.
Ingimar Óskarsson er viðræðugóður maður og tíminn flaug hratt, en nú var kominn tími til að hleypa manninum aftur til starfa sinna enda verkefnin og vinnugleðin næg.
Ingimar Óskarsson