Wathnes sjóhús er ein elsta byggingin í Fáskrúðsfirði, en sjóhúsið er reist árið 1882. Byggingin er reist af Otto Wathne sem, ásamt bróður sínum Friðrik Wathne, rak bæði fiskverkun og verslun á Búðaströnd eins og það var kallað í kring um aldamótin 1900 þegar þorp tók að myndast við norðanverðan Fáskrúðsfjörð. Hefur húsið gengt hinum ýmsu hlutverkum í áranna rás.  Það hefur gengt hefðbundnu  hlutverki sjóhúss, pakkhúss og salthúsverkunnar, þar hafa verið saltaðar gærur auk þess sem  það hýsti hermenn um tíma á hernámsárum.  Húsið hefur tekið breytingum eftir þeirri starfsemi sem í því var stundað á hverjum tíma en í dag stendur það í sömu mynd og það var byggt.  Þetta fallega svarta hús með hvítu gluggaumgjarðirnar hefur hlotið glænýtt hlutverk, hlutverk sem að þeir Wathne bræður hafa að öllum líkindum aldrei gert sér í hugarlund. Nú er húsið helgað norðurljósum því að þar er sýning á ljósmyndum af norðurljósum, teknar af ljósmyndurunum Jónínu Guðrúnu Óskarsdóttur og Jóhönnu Kristínu Hauksdóttur sem báðar eru uppaldar í Búðaþorpi. Ljósmyndirnar eru einnig allar teknar í Fáskrúðsfirði og sýna  fjallahringinn baðaðan fallegri litasinfóníu norðurljósanna. En hvað gildi hefur það fyrir ljósmyndarana að sýna verk sín í umræddu húsi? „Það var mikið happ fyrir mig og Jóhönnu þegar okkur gafst kostur á að koma norðurljósmyndunum okkar fyrir í Wathneshúsinu og hafi Loðnuvinnslan mikla þökk fyrir. Húsið rammar myndirnar svo fallega inn og ég tel að myndirnar glæði líka húsið lífi og lyfti því upp. Þeir gestir sem koma til að skoða myndirnar tala um hversu áhrifamikil upplifun það er að sjá þessar myndir í þessu fallega umhverfi“ svaraði Jónína Guðrún

En það er ekki eina hlutverk hússins því þar eru gjarnan haldin mannamót. Starfsmannafélag Loðnuvinnslunnar heldur samkomur þar vegna margskonar tilefna og hafa landsþekktir tónlistamenn stigið þar á stokk til að skemmta starfsfólki. Þá eru aðalfundir bæði Loðnuvinnslunnar og Kaupfélagsins haldnir í húsinu en þar er allur sá búnaður að finna sem þarf til slíkra fundahalda. Þá er ótalið hinar ýmsu móttökur gesta á vegum LVF eða KFFB og skemmst er að minnast komu forseta Íslands s.l haust.

Fjóla Þorsteinsdóttir er bæjarleiðsögumaður og má segja að hún sé fremst meðal jafningja þegar kemur að því að fara með gesti um söguslóðir í Búðaþorpi. Hennar hlutverk hefur verið að taka á móti gestum á Norðurljóshús Íslands í Wathneshúsi. Lang stærsti hópur gesta eru erlendir ferðamenn sem eru á ferð um Ísland og að vonum langar flesta til þess að sjá norðurljósin með eigin augum, en ekki er alltaf færi á því. En það er alltaf færi á að skoða þessar fallegu myndir sem hanga á veggjum Wathnes sjóhússins. „Gestum finnst myndirnar magnaðar og í einstakri umgjörð í þessu húsi“ segir Fjóla og bætti því við að hún segi gestum gjarnan frá því að töluvert hefur verið haft fyrir flestum þessara mynda því ljósmyndararnir hafi á stundum legið kaldar og blautar í skurði heilu og hálfu næturnar til þess að ná sem bestum ljósmyndum, og slíkar sögur kann fólk að meta. Þegar gestir hafa lokið við að skoða ljósmyndirnar fer Fjóla með hópinn í Tanga þar sem konur á vegum Gallerí Kolfreyju taka á móti gestum með veitingum og hlýju brosi. Á þeirri skömmu leið sem liggur á milli þessara tveggja húsa segir leiðsögumaðurinn frá hlutverki Loðnuvinnslunnar og Kaupfélagsins, svo að allir sem taka þátt í slíkum túr hjá Fjólu fara frá Fáskrúðsfirði mun betur upplýstir um líf fólks við fjörðinn fyrr og nú.

BÓA

Fjóla Þorsteinsdóttir

Ljósmyndararnir og æskuvinkonurnar, Jóhanna Kristín Hauksdóttir og Jónína Guðrún Óskarsdóttir

Mynd af jólafagnaði Starfsmannafélags Loðnuvinnslunnar í Wathnes húsi. Greina má norðurljósin á veggjum.