Bryndís Magnúsdóttir er launafulltrúi hjá Loðnuvinnslunni. Hún er ung kona, 39 ára gömul, björt yfirlitum og stutt í brosið. Bryndís er uppalin á Álftanesi, gekk þar í barnaskóla en á þeim tíma sem hún var að alast upp sóttu unglingarnir á Álftanesi skóla í Garðabæ.  Hún var uppátækjasamur stelpu krakki, „ég var martröð allra foreldra“ sagði Bryndís hlæjandi og rifjaði upp einhver af uppátækjum sínum sem barn. En þar á meðal má tilgreina að hún sleit þvott af snúrum nágranna og breiddi út um garðinn, hún stalst á bak á hestum sem stóðu saklausir á beit og ýmislegt fleira í þeim dúr. Þegar stórfjölskyldan hittist er gjarnan rifjuð upp eitthvað af bernskubrekum Bryndísar og þó að foreldrar hennar hlæi að þeim í dag má geta nærri að sú hafi ekki alltaf verið raunin. 

Það er fallegt á Álftanesi, stutt í fjörur, auðugt fuglalíf og auðugt mannlíf. Við slíkar aðstæður er gott að alast upp og ekki skemmir að geta stundað íþrótt sem hentar hverjum og einum og Bryndís var svo lánsöm að stunda fimleika um nokkurra ára skeið.

Eftir að grunnskóla lauk fór Bryndís í Iðnskólann í Hafnarfirði en þar var ekki hennar hilla. Þá fór hún í Fjölbrautarskólann í Garðabæ og útskrifaðist þaðan sem stúdent og elsta barnið hennar var aðeins eins mánaða við þau tímamót.

Bryndís og þáverandi sambýlismaður hennar tóku þá stóru ákvörðun að flytja austur á land með kornungan soninn því sambýlismaðurinn hafði fengið vinnu í Alco Fjarðaráli. En líkt og algengt er á lífið til að  flækist svolítið  og þau slitu samvistum.

Stundum er sagt að þegar einar dyr lokist þá opnist aðrar. Og hún Bryndís kynntist ástinni á nýjan leik. Hún hitti ungan mann frá Eskifirði, Hannes Rafn Hauksson, og þau gerðu sér bú á Reyðarfirði og eiga saman tvö börn.

Þegar Bryndís er innt eftir áhugamálum sínum svarar hún um hæl: „Hlaup, ég nýt þess að hlaupa og stunda útiveru“.  Bryndís hleypur með hlaupahópi sem starfræktur er á Reyðafirði auk þess að hlaupa á eigin vegum. Hún er með á dagskránni hjá sér að hlaupa hálfmaraþon auk annarra hlaupa. Þá segist hún Bryndís vera hálfgerður „borðspilanörd“. „Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á borðspilum, alveg frá því að ég var krakki, en þá þurftu spilin að vera með peningum líkt og Mattador“ sagði Bryndís brosandi en í dag eru spilapeningar ekki nauðsynlegir til að vekja áhuga hennar á spili. Þessi spilaáhugi er auðvitað fjölskyldu og vinum vel kunnur og því fær hún alloft spil að gjöf. „Ég á yfir 80 spil, sem ég hef safnað í gegn um tíðina“ segir Bryndís.

Þar sem Bryndís býr á Reyðarfirði en starfar hér á Búðum þá lá nokkuð beint við að spyrja hana hvernig henni fyndist að aka á milli allan ársins hring og hún svaraði því til að henni fyndist það gott. Að eiga stund með sjálfri sér í akstrinum en gott og færð og veður hafa verið með besta móti það sem af er þessum vetri svo engin vandamál hafa látið á sér kræla í þeim efnum.  „Maðurinn minn sér um krakkana á morgnana, að koma þeim í skólann og þess háttar svo að það er ekkert stress fyrir mig á morgnana, bara að aka í rólegheitum í vinnuna“ segir Bryndís og bætir því við að sér líki afar vel að vinna hjá Loðnuvinnslunni og finnist því aksturinn vel þess virði.

Þá er Bryndís er í stjórn Starfsmannafélags Loðnuvinnslunnar og það finnst henni skemmtilegt. „Þá fæ ég tækifæri til að kynnast fólki sem starfar í öðrum deildum“, því eðli málsins samkvæmt hefur hún mest samskipti við starfsfólk skrifstofunnar.  Viðburðirnir sem hafa verið á vegum Starfsmannafélagsins eru líka frábær vettvangur til að kynnast enn fleirum af samstarfsfólkinu“ sagði Bryndís að auki.

Bryndís sinnir starfi sem á hvílir mikil ábyrgð, hún reiknar úr laun, greiðir reikninga og sýslar með peninga. „Það hefur verið mikill lærdómur að sinna þessu starfi og ég er mjög þakklát fyrir tækifærið“ sagði Bryndís Magnúsdóttir að lokum.

BÓA

Bryndís Magnúsdóttir