Tangi er hús í eigu Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga. Húsið er sannkölluð bæjarprýði þar sem það stendur við sjávarsíðuna, reisulegt og fallegt á að líta.
Húsið á sér langa sögu en það var reist árið 1895 af Carli Daniel Tulinius en sonur hans Carl Andreas Tulinius rak verslunina fyrir föður sinn, síðar tók annar sonur Carls Daniels, Þórarinn Tulinius, við rekstrinum. Þegar verslunarsögu Tuliniusar feðga lauk í Búðaþorpi tóku aðrir aðilar við keflinu. Hinar sameinuðu íslensku verslanir, þar sem Þórarinn Tulinius var á meðal, þá tók við rekstrinum Jón Davíðsson kaupmaður og árið 1933 er Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga stofnað og kaupir húsin á Tangareitnum svokallaða.
Húsið Tangi er reist sem verslunar og íveruhús. Því var skipt í eystri og vestari hluta og í þeim eystri var heimili kaupmannsfjölskyldunnar og í þeim vestari var verslun á neðri hæð og lagar á eftir hæð.
Búið var í húsinu allt til ársins 1946 þannig að fyrsti kaupfélagsstjórinn Björn Ingi Stefánsson og kona hans Þórunn Sveinsdóttir áttu sitt heimili þar og fæddust þeim fjögur börn í Tanga. Á þessum árum var hægt að sýlsa með rekstur Kaupfélagsins á einum litlum kontór. En eftir því sem umfang Kaupfélagsins jókst var kaupfélagsstjóra fundið annað heimili og skrifstofur tóku að starfa í borðstofu og betri stofu.
En verslunin stækkaði ört og þurfti meira húsnæði þannig að skrifstofur voru fluttar annað og verslunin færðist í allt Tangahúsið. Þar var hægt að versla allt milli himins og jarðar, allt frá gúmmístígvélum til haglabyssa og hælaskóm til lambaskrokka.
Til þess að mæta þörfum starfseminnar í húsinu þurfti það að taka breytingum. Veggir voru fjarlægðir og aðrir reistir. Og þannig gekk það allt til ársins 1980 þegar Kaupfélagið hætti að reka verslun þar og flutti hana í nýtt húsnæði. Þá tók við tímabil í Tanga þar sem húsið fékk ýmis hlutverk, eitt af þeim var t.a.m netagerð eða netageymsla.
Rúmum tuttugu árum eftir að verslunarrekstri var lokið í Tanga var húsið orðið frekar dapurt ásýndar. Fallegi búningurinn sem það hafði verið fært í við byggingu var ekki lengur til staðar. En Kaupfélagið sá gildi hússins og ákvað að endurbyggja það í sinni upprunalegu mynd. Nokkrum árum eftir að sú ákvörðun var tekin endurheimti Tangi sína upphaflegu fegurð og glæsileika og stendur þannig í dag.
En hús eru til þess að hýsa eitthvað líf, einhverja starfsemi. Og það er gert í Tanga. Þar er starfræktur handverksmarkaður heimamanna á Fáskrúðsfirði, Gallerí Kolfreyja. Þar er hægt að nálgast fallegt handverk af ýmsu tagi, allt unnið af fólki sem býr eða hefur búið í Fáskrúðsfirði.
Elsa Guðjónsdóttir er formaður stjórnar Gallerí Kolfreyju. Aðspurð svaraði hún því til að Kolfreyja gæti hreinlega ekki fengið hentugra eða betra húsnæði undir sína starfsemi. „Húsið er fallegt og heldur vel utan um okkar handgerða varning“ sagði Elsa. Eðli málsins samkvæmt kemur margt fólk í Kolfreyju, ýmist Íslendingar eða erlendir ferðamenn. „Allir sem koma hingað dásama húsið ekki síður en það sem við höfum á boðstólnum“ sagði Elsa.
Þá er húsið nýtt undir starfsemi á vegum Loðnuvinnslunnar. Á efri hæð er lítill salur þar sem fram fara hin ýmsu námskeið fyrir starfsfólk fyrirtækisins. Þá hafa verið í húsinu myndlistasýningar auk sýninga á munum sem tengjast fólki og lífi hér við Fáskrúðsfjörð.
Þegar Tangi var endurbyggður var ekkert til sparað. Reynt var af fremsta megni að færa allt til fyrra horfs en þó var tekin sú ákvörðun að setja vatnssalerni þar sem kolageymslan hafði áður verið enda engin þörf á kolageymslu í dag.
Það var sannarlega gæfuspor hjá stjórn Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga að taka þá ákvörðun á sínum tíma að endurbyggja verslunar og íveruhúsið Tanga og nýta það undir starfsemi sem er öllu samfélaginu til heilla. Nú stendur það virðulegt, líkt og dama í bestu kápunni sinni, og tekur hlýlega á móti gestum þegar þeir bera að garði.
BÓA
Tangi eins og húsið lítur út í dag.
Tangi eins og húsið leit út áður en endurbætur hófust.
Elsa Guðjónsdóttir formaður Gallerí Kolfreyju