Í þeim stafræna heimi sem við lifum í er auðvelt að nálgast upplýsingar. Sú var tíðin að fólk þurfti að sitja með eyrað við útvarpstæki á fyrir fram ákveðnum tíma til þess að fá niðurstöður kosninga, vinsældalista í poppinu og fleira í þeim dúr. Nú horfir öðruvísi við. Til eru hlutlausir aðilar sem halda utan um upplýsingar svo við hin getum flett þeim upp og fræðst.  Þar á meðal eru Aflafréttir, vefsíða sem færir fréttir af aflatölum íslenska flotans.

Nú hafa Aflafréttir birt lista yfir aflahæstu báta yfir 21 brúttó tonn í febrúar, og þar er í fyrsta sæti Hafrafell Su 65 og í þriðja sæti er Sandfell Su 75. Hafrafell var með 341,7 tonn  og Sandfell með 310,6 tonn. Er þetta framúrskarandi árangur.

Ólafur Svanur Ingimundarson er skipstjóri á Hafrafelli. Þegar hann var inntur eftir því hverju hann þakkaði þennan góða árangur svaraði hann að bragði: „ Samstarfinu sem ríkir, við erum með fimmta manninn í landi, hann Geira (Siggeir Ólafsson) hann er okkar fimmti maður“.  Þá sagði skipstjórinn að allt samstarf við útgerðina væri til fyrirmyndar og það hefði mikið að segja að vera alltaf með topp beitu. „Það er hugsað um okkur   eins og blóm í eggi“ sagði skipstjórinn kampakátur.

Marcin Grudzien er skipstjóri á Sandfelli. Hann var mjög sáttu við árangurinn í febrúar og sagði að veðrið hefði verið nokkuð hagstætt miðað við árstíma og að það væri mikið af fiski. „Það er líka mög gott að hafa Siggeir, hann hugsar mjög vel um okkur og það er allt tilbúið þegar við komum að landi“ sagði Marcin.

 Afli Hafrafells og Sandfells er unninn í frystihúsi Loðnuvinnslunnar hér heima í Búðaþorpi.

Hafrafell og Sandfell hafa tvær áhafnir. Hvor áhöfn heldur út í tvær vikur og fær svo tvær vikur í frí. Þetta fyrirkomulag gerir það að verkum að sjómennirnir eru tilbúnir að sækja stíft á meðan á vaktinni stendur því þeirra bíður langt og gott frí.

BÓA

Sandfell

Hafrafell Ljósmynd: Þorgeir Baldursson