Það er nóg að gera í fiskmjölsverksmiðju Loðnuvinnslunnar þessa dagana enda kolmunnaveiði í fullum gangi.  Uppsjávarveiðiskip sjást gjarnan við bryggju til þess að landa afla og mörg af þeim má kalla nokkurs konar fastagesti, þ.e. skip sem hafa komið ítrekað til löndunar. Auk Hoffells Su 80 sem er skip Loðnuvinnslunnar hafa landað hér skip frá Færeyjum, Grænlandi og Noregi. Og þegar þessi orð eru rituð er norska skipið Österbris á leiðinni með rúmlega tvö þúsund tonn.

Þegar afli Österbris er kominn að landi hefur fiskmjölsverksmiðjan tekið á móti 31.000 tonnum af afla frá áramótum sem  u.þ.b 5.000 tonnum meira en á sama tíma í fyrra.

„Það hefur aldrei gengið betur“ svaraði Magnús Björn Ásgrímsson er verksmiðjustjóri fiskmjölsverksmiðjunnar  því til þegar hann var inntur eftir því hvernig hefði gengið hjá honum og hans fólki í verksmiðjunni við að taka á móti öllum þessum afla. Ástæðuna fyrir þessu góða gengi sagði Magnús að væri að þakka þeim endurbótum sem orðið hafa á verksmiðjunni á undan förnum misserum.  „Það er búið að stækka eimingartækin og þurrkarana auk annarra endurbóta“ sagði Magnús.

Fiskmjölsverksmiðjan hefur notið þeirrar gæfu að hafa stöðugan mannskap í sínum röðum, fólk sem kann vel til verka og veit hvað það syngur þegar kemur að því að búa til mjöl og lýsi úr þeim fiskum sem landað er.  Svo að segja má að góðar græjur og gott fólk skapi velgengni.  

BÓA