Siggeir Ólafsson er maður sem fæddur er um miðjan áttunda áratuginn. Hann er spengilegur vexti og andlit hans túlkar öll hans orð og stutt er í brosið. Siggeir vill gjarnan láta kalla sig Geira, „mér fannst það kúl þegar ég var strákur“ sagði hann brosandi. Geiri  er alinn upp á Búðum við Fáskrúðsfjörð. Allra fyrstu árin voru það bara hann, móðir hans og langamma, en fljótlega kom fósturfaðir til sögunnar og síðar systkin. Barnæskan var góð, og eins og algengt er meðal fólks sem farið er að nálgast miðjan aldur, var eilíft sólskin í uppvextinum.  Hann var mikið að bardúsa með afa og ömmu sem héldu bæði hesta og kindur og hann stundaði hestamennsku með Valbirni stjúpa sínum og frænda Gunnari Björgvin og því var í nógu að snúast. Þá  var hann mikið í Tungu sem er sveitabær skammt innan við þorpið í Fáskrúðsfirði. „Maður var alltaf úti að leika og fullt af krökkum til þess að leika við því allir voru úti“ sagði Geiri þegar þetta tímabil í lífinu var rifjað upp.

Eftir að grunnskóla lauk fór Geiri beint út á sjó, sextán ára gamall var hann farinn að stíga ölduna á hafsins ólgusjó. Og við þann starfa hélt hann sig í allmörg ár.  „Það var mikið ævintýri að vera á Flæmska hattinum til sjós, aðeins átján ára gamall og leggja upp í St. Johns“.   Eftir að ævintýrunum á Flæmska lauk fór Geiri á sjó hér fyrir austan, fyrst á Hólmatind frá Eskifirði og síðar á Ljósafellið. „Ólafur Gunnarsson skipstjóri á Ljósafellinu bauð mér pláss og þar var ég í  tæp sjö ár“ sagði Geiri og sagði það hafa verið afar góðan tíma. Árið 2004 lendi Geiri í slysi sem verður þess valdandi að hann þurfti tíma til að gróa sára sinna. Okkar maður dreif sig þá í meirapróf til þess að auka möguleika sína á vinnumarkaði. Skipstjórinn á Ljósafelli kunni vel að meta störf Geira og bauð honum að taka leyfi, í stað þess að segja upp, og sjá hvernig hann kynni við akstursstarfið áður en hann segði upp plássinu endanlega.  „Ég var hjá Flytjanda í eitt ár og fór svo að keyra hjá Hauki Fúsa (Haukur Sigfússon) og Haukur frændi kenndi mér allt sem vert er að vita um akstur og bíla“ sagði Geiri kíminn.

Geiri hafði um nokkurra missera skeið komið að afleysingu hjá Loðnuvinnslunni, komið að því að keyra þegar mikið var að gera og flytja þurfti afla. Árið 2019 fór hann svo í fullt starf hjá LVF og hefur verið þar síðan og óhætt er að segja að hann sé afar mikilvægur hlekkur í þeirri keðju sem þarf að vera til staðar til þess að halda fyrirtæki eins og Loðnuvinnslunni gangandi.  Þegar hann var inntur eftir því í hverju hans starf fælist aðallega kom löng upptalning á verkefnum. En hans aðal starf er að þjónusta línubátana Sandfell og Hafrafell. Allur afli þessara línubáta er unninn í frystihúsi LVF og er því sóttur þangað sem bátarnir landa aflanum. „Ég sæki afla frá Kópaskeri til Grindavíkur“ sagði Geiri og bætti við: „ég færi þeim beitu og ís fyrir næsta túr, auk þess sem ég færi þeim allskyns varahluti, kost, og hvað eina annað sem áhafnirnar vanhagar um svo lesta ég aflanum sem þeir komu með að landi í bílinn hjá mér, ek honum heim og affermi bílinn. Svo þarf stundum að koma hlutum í viðgerð og afhenda varahluti“.  Þessi upptalning er mikil einföldun á starfi Geira enda þegar stigið er inn á hans starfsstöð er eins og að koma inn á lager þar sem allt sem hugsanlega þarf til línubátaútgerðar er að finna, allt frá klósettpappír og kaffikönnum til olíubrúsa og fiskikróka. Allt skilmerkilega merkt og raðað í hillur svo að auðvelt sé að nálgast. „Það er mikilvægt að þurfa ekki að bíða eftir að fá hluti senda frá Reykjavík þegar þá vantar því þá þurfa bátarnir að bíða og sækja  ekki sjó á meðan“ sagði hann.

Geiri nýtur starfsins, að snúast í kring um línubátana og gera það vel er honum mikilvægt og hefur greinarhöfundur marga sönnun þess að það er mikils metið. Áhafnir Sandfells og Hafrafells, auk þeirra sem starfa hjá útgerðinni, kunna afar vel að meta Geira og hans störf og alla þá þjónustu sem hann innir af hendi til þess að einfalda og létta þeim störf sín. „Við erum orðnir góðir félagar, ég og áhafnirnar, og þeir eru hörku sjómenn, allir sem einn“ sagði Geiri og minntist eins áhafnarmeðlims sem lést fyrir tæpu ári og sorgin býr enn í Geira enda ekki langur tími liðinn til þess að græða sorgarsár.

Svo Geiri ekur mikið. Lánið lék við greinarhöfund því hann var í lögbundnu 48 tíma stoppi eins og bílstjórar þurfa að lúta tvisvar í mánuði. Annars væri hann líklega á akstri einhversstaðar.  Það er krefjandi og ekki hættulaust að aka um þjóðvegi Íslands að vetrarlagi. Og þegar Geiri var spurður út í það sagði hann að oft þyrfti að nota veðurglugga. Þ.e. að keyra þegar veður og færð eru með betra móti þegar hægt væri að koma því við. „T.d. þegar ég sæki umbúiðir í frauðkassaverksmiðjuna á  Djúpavogi, þá fer ég á tómum flutningabíl sem tekur á sig mikinn vind og því notar maður tækifærði þegar veður og færð leyfa, annars nota ég stóra bala fulla af vatni til þess að þyngja bílinn“.  Og nú vorum við farin að tala um bíla og þar hefur Geiri sterkar skoðanir enda fagmaður á ferð. Þegar hann var inntur eftir bílakostinum sagði hann að hann hefði yfir að ráða „einum bíl og einum hálf smíðuðum Scania“.  Hann útskýrði það frekar með því að segja að Scania bíllinn væri bara með eitt drif að aftan og hentað því illa til vetrar aksturs en Man bíllinn sem hann hefði líka væri alvörutæki á „járnbrautarteinum“, sem er tilvísun sem aðrir bílstjórar skilja. 

Það segir sig nú eiginlega sjálft að það er ekki hægt að keyra flutningabíl og leggja honum svo í stæði og bíða næsta túrs. Það þarf líka að þrífa þá, sjá um að viðhaldi sé sinnt, tengja og aftengja, skrúfa og laga, pússa og klappa. Og þetta gerir Geiri með sjaldséðri ánægju þess sem lítur á öll verkefnin sína sem sjálfsögð og mikilvæg.

Þá þarf líka að sinna heilmiklum akstri innan bæjarmarka, að flytja afla á milli starfsstöðva er verkefni sem þarf að sinna og oft af miklum móð þegar mikið er að gera. Þá hleypur Geiri til og segist vera svo heppinn að geta kallað til liðsauka „Ingimar Óskarsson verkstjóri á Vélaverkstæði LVF lánar tvo góða menn til að keyra þegar þörf er á og svo á ég hauk í horni hjá Eimskip, þaðan þarf stundum að fá bíl og bílstjóra“ segir Geiri og leggur áherslu á hve mikil og góð sammvinna sé á milli deilda innan Loðnuvinnslunnar.

Það er svo greinilegt þegar talað er við Geira að hann lítur ekki á vinnuna sína sem áþján. „Mér finnst mjög gott að vera einn með sjálfum mér og keyra“ sagði hann og  sannarlega brennur Geiri fyrir starfinu, akstri, bílum og öllu sem þessu viðkemur. Svo að beinast lá við að spyrja hver draumabíllinn væri og ekki stóð á svari: „ dráttarbíll með body og 49 tonna æki“. Skýrt og skilmerkileg.

Geiri vinnur mikið, oft langan vinnudag og er oft mikið að heiman og segir hann að konan hans sé mjög skilningsrík og andvarpi bara hljóðlega þegar símtöl berast seint að kvöldi eða þegar hann fer eldsnemma á fætur. En einstaka sinnum á hann frí og þá nýtur hann þess að ganga úti í náttúrunni og  vera með fjölskyldunni. Ein dóttir er eftir heima og eitt barnabarn sem hefur að mestu alist upp hjá ömmu og afa. „Við  förum stundum til Reykjavíkur eða Akureyrar og gerum okkur dagamun“ sagði Geiri en aðspurður sagði hann að þau færu ekki mikið til útlanda „mér er illa við að fljúga“ sagði maðurinn sem eytt hefur árum  á láði og legi og kærir sig ekkert um loftið.

Geiri sagði að sér þætti mjög gott að vinna hjá Loðnuvinnslunni, það væri auðvitað mikið að gera  en yfirmennirnir eru jákvæðir og fyrirtækið fullt að góðu fólki, „eiginlega hörku lið“ sagði hann.

Siggeir Ólafsson vinnur gott dagsverk á hverjum einasta degi og fyrir það er vert að þakka. Launaskrá Loðnuvinnslunnar  er full af ómissandi fólki og þar á meðal er Geiri.

BÓA

Þumall upp hjá okkar manni Geira.