Hefðir geta verið skemmtilegar. Þær tengjast gjarnan hátíðum og sérstökum dögum, dögum þar sem hefðin er að borða einhvern tiltekinn mat, framkvæma ákveðnar athafnir og þess háttar. Er nærtækasta dæmið þeir dagar sem eru nýliðnir á almanakinu, þeir bræður bolludagur, sprengidagur og öskudagur. Svo ekki sé nú talað um jólin, páskana, sjómannadaginn og svona mætti lengi telja. Þá eru hefðir innan fjölskyldna sem eru margar og mismunandi og hafa gildi og merkingu fyrir fjölskyldumeðlimi.
Samkvæmt íslenskri orðabók merkir orðið hefð; rótgróinn siður. Þ.e eitthvað sem hefur verið endurtekið svo oft að það er orðið rótgróið.
Innan fyrirtækja og stofnanna ríkja líka hefðir. Ein er sú hefð innan Loðnuvinnslunnar að gefa gómsæta köku við hin ýmsu tilefni. Það getur verið þegar einhverjum áfanga er náð eða til að taka á móti skipi sem landar afla til vinnslu hjá fyrirtækinu, þegar vígja skal tæki eða búnað sem og við hver önnur tækifæri sem vert er að fagna. All mörg erlend skip hafa komið nokkrum sinnum í gegn um árin til þess að landa afla sínum hjá Loðnuvinnslunni og fá þá gjarnan köku. Meðal áhafna þessara skipa gengur Búðaþorp undir nafninu „Cake town“ eða Kökubær sem er í orðsins fyllstu merkingu sæt nafngift.
Kökurnar eru keyptar á Café Sumarlínu. Þar eru þær bakaðar af alúð og skreyttar fallega og nostursamlega. Ef kaka á að fara um borð í skip eða bát þá er gjarnan mynd af viðkomandi fleytu á kökunni. Þessi siður er sannarlega orðin rótgróinn enda var fyrsta kakan bökuð fyrir Loðnuvinnsluna árið 2008. Óðinn Magnason er eigandi Sumarlínu ásamt eiginkonu sinni Björgu Hjelm. Café Sumarlína er fjölskyldufyrirtæki því kokkurinn er dóttir þeirra hjóna. Að sögn Óðins hafa bakarar Sumarlínu töfrað fram 30 til 50 kökur á ári í sextán ár. Meðaltalið gefur okkur um það bil 500 kökur á tímabilinu. Það eru því engar ýkjur að segja að fjöldamargar manneskjur hafi notið þeirra.
Það er fallegur og góður siður að gefa fólki að borða og þegar það er ástæða til að fagna og gleðjast er fátt betra en að stinga upp í sig góðum bita af sætri og góðri köku og ekki skemmir fyrir ef hún er falleg líka.
Megi þessi hefð lifa góðu lífi um aldur og ævi því eins og segir í málshættinum: „Sætur er sjaldfenginn matur“.
BÓA
Allra fyrsta kakan sem bökuð var fyrir Loðnuvinnsluna árið 2008. Ljósmynd: Óðinn Magnason
Allra nýjasta tertan sem var útbúin fyrir örfáum dögum. Hönnun og útlit hefur tekið breytingum enda skapar æfingin meistarann. Ljósm: Óðinn Magnason