Lífið getur fært fólki ýmsar áskoranir og ýmis tækifæri. Sumar áskoranir eru erfiðar en aðrar láta gott af sér leiða. Ein af slíkum áskorunum kom í hendur Jóhanns Elís Runólfssonar á dögunum þegar hann fékk tækifæri til þess að starfa sem skipstjóri á Ljósafellinu, hans fyrsti túr sem “karlinn í brúnni” á því góða skipi.  Atvikin höguðu því þannig til að Hjálmar Sigurjónsson skipstjóri á Ljósafellinu lenti í alvarlegu slysi og hefur því verið frá störfum um all langt skeið. Þá steig 1.stýrimaðurinn Kristján Gísli Gunnarsson upp og er starfandi skipstjóri. Með honum í brúnni eru svo Guðjón Anton Gíslason yfirstýrimaður og Jóhann Elís 2.stýrimaður.  Það þarf marga stjóra á vinnustað sem starfar allan sólarhringinn. 

Venjan er sú að skipstjóri og yfirstýrimaður fari ekki í frí á sama tíma, annar þeirra er við stjórnvölin og röð færist upp samkvæmt því. En svo bar við að yfirstýrimaðurinn Guðjón Anton var í fríi í síðasta túr fyrir jólafrí en þegar kom að því skipið skyldi sigla til hafs greindist skipstjórinn Kristján með Covid og fór því hvergi. Þá var komið að Jóhanni Elís að taka við taumunum og það gerði hann með sóma. Sér til halds og trausts fékk hann Kristmund Sverri Gestsson sem yfirstýrimann, en Sverrir en alvanur Ljósafelli, var munstraður þar í mörg ár.

Þeir fengu á sig nokkra brælu en náðu samt að afla þannig að vinnslan í landi hafði næg verkefni fram að jólum.  Verkefnið  var leyst með heiðri og sóma.

Jóhann Elís var inntur eftir því hvort að hann hefði áður verið skipstjóri? “Ég var skipstjóri á Tind ÍS frá Flateyri, þar vorum við á fiskitrolli og sæbjúgnaveiðum” svaraði þessi 36 ára gamli, hógværi maður sem útskrifaðist úr Stýrimannaskólanum árið 2015, þannig að hann er enginn nýgræðingur á hafinu. Jóhann Elís svaraði því líka aðspurður að túrinn hefði gengið fínt, “veðrið var svolítið að trufla okkur, við hófum veiðar á Gerpisflaki og Gula teppinu, en fórum norður á Digranesflak þegar brældi og kláruðum túrinn þar. Við náðum í þau tonn sem beðið var um” svaraði hann með stolti þess sem skilar góðu starfi.

Skipstjórinn Jóhann Elís var að sjálfsögðu ekki einn á ferð, áhöfn Ljósafells er samsett af vönum sjómönnum sem margir hverjir hafa verið lengi til sjós og hafa, eins og segir í orðatiltækinu, marga fjöruna sopið. Enda hafði skipstjórinn orð á því að strákarnir um borð hefðu tekið sér mjög vel sem skipstjóra enda hefðu þeir unnið saman s.l. tvö ár.

Og þegar Jóhann Elís var spurður hvort að sér hefði fundist gaman að vera skipstjóri svaraði hann snöggur upp á lagið: “Já, það var mjög gaman enda skipið mjög gott”.

Eflaust bíða Jóhanns Elís fleiri verkefni sem skipstjóri og er hann vel að því kominn enda mikill sómamaður hér á ferð.

BÓA

Skipstjórinn knái Jóhann Elís Runólfsson. Ljósmynd af Facebook síðu Ljósafells SU 70