Það lætur ekki mikið yfir sér að utan verðu en innan veggja byggingarinnar eiga sér  stað mikil vísindi og merkileg framleiðsla.  Hér er verið að tala um húsið sem heldur utan um framleiðslu á nasli úr sjávarfangi undir vörumerkinu Næra.  Fer umrædd framleiðsla fram í Búðaþorpi við Fáskrúðsfjörð og allt hráefnið sem notað er kemur frá Loðnuvinnslunni.

Á heimasíðu Næra má lesa um það að dr. Holly Kristinsson hafi flutt til Íslands árið 2015 og séð möguleikana sem felast  íslensku gæða hráefni og stofnaði í kjölfarið fyrirtækið Responsible Food árið 2019 og framleiðir nú heilsunasl úr úrvals hráefni undir vörumerkinu Næra ásamt manni sínum dr. Herði G. Kristinssyni, en þau eru bæði menntuð á matvælasviði.  Þar kemur einnig fram að um einkaleyfisvarða aðferð sé að ræða við framleiðslu á naslinu.

Næra framleiðir nokkrar tegundir nasls, ostanasl, skyrnasl og fiskinasl. Fiskinaslið er harðfiskur úr ýsu, þurrkuð loðna ásamt kúlulaga snakki úr fiski, annars vegar með íslensku smjöri og hins vegar með íslenskum osti. Allar þessar vörur er hægt að nálgast í Kjörbúðinni á Fáskrúðsfirði.

Það tekur langan tíma að þróa vörur af þessu tagi í það form að það verði það lostæti sem það á endanum verður en það var draumur dr. Holly að búa til nasl sem væri ekki aðeins bragðgott heldur líka hollt. Og fiskurinn í íslensku landhelginni er svo sannarlega hollur.

Hörður  var inntur eftir því hversu langan tíma þessi þróun hefði tekið og svaraði hann því til að það væru mörg ár. „Það þurfti að finna áhugasama fjárfesta, þróa vöruna og síðan að koma henni á markað“  sagði Hörður og þar kom Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga til sögunnar því að félagið sá þarna möguleika til þess að nýta á fjölbreyttari máta hráefnið sem, dótturfyrirtækið Loðnuvinnslan aflar og vinnur, og fjárfesti í Responsible Food. Og þar með er komin skýringin á því hvers vegna framleiðslan á sjávar naslinu fer fram hér á Búðum. „ Við opnuðum framleiðslustöð á Fáskrúðsfirði í janúar 2023. Sérstaðan okkar þar er að við komumst í raun ekki nær ferska hráefninu sem við erum að nota í Næra naslið því að framleiðslan okkar er rétt við Loðnuvinnsluna þaðan sem hráefnið er“ segja þau hjónin Holly og Hörður.

Þurrkaða loðnan er farin að láta til sín taka á mörkuðum í Asíu, og sagði Hörður að þau væru á fullu að vinna upp í pantanir frá Hong Kong.  „En við horfum til markaða í Evrópu og Bandaríkjunum líka“.

Enn sem komið er vinna þau Hörður og Holly öll störf við framleiðsluna en í framtíðinni er gert ráð fyrir því að ný störf skapist eftir því sem fyrirtækið vex og vörur þess fá stærra pláss á markaði.

Það er ekki laust við að greinarhöfundur finni til stolts yfir því að frumkvöðlastarf af þessu tagi fara fram í okkar góða samfélagi hér á Búðum við Fáskrúðsfjörð.

BÓA

Hér gefur að líta fiski naslið. Pokinn í miðjunni inniheldur þurrkuðu loðnuna.

Harðfiskurinn góði. Léttur og loftkenndur og afar bragðgóður.