Þau sem ólust upp í Búðaþorpi og komin eru á miðjan aldur muna eftir reglulegum kvikmyndasýningum í Skrúði. Þá voru sýndar kvikmyndir með helstu stjörnum hvíta tjaldsins, en svo breyttust tímar og mennirnir með og sýningar á kvikmyndum féllu niður.

En samt ekki allskostar. Á dögunum bauð Loðnuvinnslan unglingastigi Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar á sýningu á kvikmyndinni sem gerð hefur verið um Ljósafell Su 70.  Var þetta þriðja opinbera sýningin á myndinni sem gerð var af Guðmundi Bergkvisti Jónssyni. 

Myndin var frumsýnd á afmælishófi sem haldið var til að fagna 90 ára afmæli Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga og 50 ára afmælis Ljósafells. Síðan gafst öllum þeim sem kusu að sjá myndina í Skrúði og mættu þar um 70 manneskjur  sem allar höfðu einlægan áhuga á myndinni og tóku henni afar vel.

Það er jú unga fólkið okkar sem erfa skal landið og það er mikilvægt að þau þekki söguna hvort heldur hún er í víðu eða þröngu samhengi. Að þau þekki og kannist við margt af því sem er og var í veröldinni, og líka í þeirra nærumhverfi og þar kemur myndin um  Ljósafell til sögunnar.

Starfsfólk á skrifstofu Loðnuvinnslunnar fékk þessa fínu hugmynd að bjóða unglingum í GF til sýningarinnar og var því vel tekið af skólastjórnendum og þriðjudagsmorgun einn skundaði hópur unglinga í Skrúð til þess að fara í bíó. Og eins og lög gera ráð fyrir var boðið upp á gos og sælgæti til þess að gæða sér á. 

“Sýningin fyrir grunnskólabörnin var sú skemmtilegasta af þessum þrem.  Börnin voru mjög prúð og það var greinilegt að þau höfðu talsverðan áhuga á að sjá gamla myndefnið frá Japan og heimsiglingunni.  Þeim fannst greinilega fyndið á sjá karlana á nærbuxunum uppi í brú og í sundi og sólbaði aftur á dekki”  sagði Kjartan Reynisson útgerðarstjóri LVF um viðbrögð nemenda, og bætti við: “Það var líka sérstaklega ánægjulegt að sjá þau tengja sig sjálf við efnið, því nokkur hluti var að sjá sig sjálf í myndinni, þá um borð í skipun okkar í sjómannadagssiglingum”. 

Í sama streng tóku það starfsfólk skólans sem fylgdu nemendunum á sýninguna. Eva Ösp Örnólfsdóttir sagði að þeir nemendur sem hún fylgdi hafi verið mjög sáttir og fundist myndin áhugaverð og að nokkur umræða hafi skapast á leiðinni í skólann að sýningu lokinni. 

Guðfinna Erlín Stefánsdóttir sagði einnig að flest hefðu sýnt myndinni áhuga þó að “einhverjar sálir hefðu kannski haft ívið meiri áhuga á veitingunum” sagði hún glaðlega og í sama glaðlega tóninum sagði hún frá því að þau hefðu mörg haft orð á því að þau sáu ættingjum bregða fyrir í myndinni, jafnvel afa eða ömmu og það hefði verið skemmtilegt.

“Það er leikur að læra, leikur sá er mér kær” segir í gömlu ljóði eftir Guðjón Guðjónsson og átti það sannarlega við þriðjudag einn í október þegar unglingar úr Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar fengu að sjá fróðlega kvikmynd auk þess að fá sætindi í morgunmat.

BÓA

Nemendur í Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar í Skrúði. Ljósmynd: Guðfinna Erlín Stefánsdóttir

Ljósmynd: Guðfinna Erlín Stefánsdóttir