Árið 1985 var glæsilegu skrifstofu- og verslunarrými að Skólavegi 59 á Búðum fulllokið. Eigandi byggingarinnar var, og er,  Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga. Enn er þessi bygging á góðum járnum ef svo má segja og hýsir verslun á jarðhæð, miðhæðin er óskipulögð en þriðja og efsta hæðin er fullnýtt um þessar mundir. Skrifstofa Loðnuvinnslunnar er þar til húsa auk þess sem nokkur skrifstofurými eru leigð út. Þrjú af fjórum rýmum eru leigð fyrir þar sem kallað er starf án staðsetningar, sem þýðir að viðkomandi starfi er hægt að sinna fjarri höfuðstöðvum þess fyrirtækis sem störfin tilheyra.   Var hugmyndin um störf án staðsetningar hluti af byggðaráætlun 2018-2024 og var markmiðið að efla byggðir landsins og að sporna við fækkun íbúa á einstökum svæðum og gera atvinnulíf fjölbreyttara. Í heimsfaraldrinum jókst það til mikilla muna að fólk vann heiman frá sér og hefur þetta fyrirkomulag löngu sannað ágæti sitt.

Það skrifstofurými sem lengst hefur verið í leigu til einstakra aðila er Bókhald GG. Bókhalds og endurskoðunarskrifstofa. Svo hafa aðrir leigjendur komið og farið eins og gengur.

 Einn af þeim sem hefur starfsstöð á efstu hæðinni á Skólavegi 59 er Guðmundur Harðarson. Hann starfar sem forritari hjá Icelandair. Þegar Guðmundur var inntur eftir því hvort að það væri engum erfiðleikum bundið að stunda vinnu sína svona fjarri höfuðstöðvum Icelandair svaraði hann því til að það væri alls ekki svo.

„Ég sinni starfi mínu alfarið í fjarvinnu og hef ekkert þurft að fara til Reykjavíkur (né annað) til þess að sinna starfinu. Meira að segja allt ferlið í kringum ráðningu mína til Icelandair var líka öll gerð í gegn um fjarfundi, tölvupóst og síma, svo ég fór ekki einu sinni að hitta þau til þess að skipta  um starf“ sagði Guðmundur.  Hann sagði líka að áður hefði hann unnið hjá öðru fyrirtæki sem sá ekki kosti við að vinna fjarvinnu fyrr en Covid skall á.  „Þá neyddist ég til þess að vinna heima við eldhúsborðið í litlu kjallaraíbúðinni okkar í Hlíðunum og þá taldi ég að engar afsakanir væru lengur fyrir því að það ætti ekki að ganga að vinna fjarvinnu. Svo við tókum stökkið að flytja aftur austur, sé svo sannarlega ekki eftir því í dag enda hefur mér alltaf fundist frábært að vera á Fáskrúðsfirði“ sagði Guðmundur og bætti við „ekki skemmir útsýnið yfir fjörðinn og yfir Sandfellið úr skrifstofunni minni“.

Moaz Salah er líka forritari og starfar hjá Origo. Hann sinnir sínu starfi að öllu leiti frá starfstöð sinni á Fáskrúðsfirði og kann afar vel að meta það að starfa í þeim geira sem hann menntaði sig til en geta samt búið hér á Fáskrúðsfirði. „Það er mikilvægt fyrir mig“ sagði Moaz  „og líka fyrir samfélagið hér að fólk með allskonar menntun geti fundið starf við sitt hæfi þrátt fyrir að höfuðstöðvar þeirra fyrirtækja sem þau starfa hjá séu í höfuðborginni, eða jafnvel í útlöndum“ sagði Moaz sem út um glugga skrifstofu sinnar nýtur útsýnis til Hoffells og hinna fallegu fjallanna er standa vörð um Fáskrúðsfjörð norðanmegin.

 Daði Már Steinsson er að vinna fyrir flugfélagið PLAY auk þess sem hann rekur litla ferðaskrifstofu, Nordic Green Travel. Svo á hann og rekur markaðsstofuna SNÆDAL ásamt bróður sínum. Daði Már hefur tímabundna starfstöð á Fáskrúðsfirði og segir: „það er frábært að vera hér innan um rjóma íslensks atvinnulífs“ og vísar þá til félaga sinna í skrifstofurýmunum sem sagt var frá hér að framan auk Loðnuvinnslunnar.  Daði segir að það honum þykir mjög mikilvægt að hafa þann möguleika að geta sinnt starfi sínu nánast hvar sem er „það getur verið mjög mikilvægt. Það opnar á marga möguleika fyrir fjölskyldufólk, t.a.m.  Nú hef ég verið hér í u.þ.b. tvo mánuði með yngri strákana mína tvo  og þeir elska að vera í frelsinu hér fyrir austan“ sagði Daði Már.

Hverjum þykir sinn fugl fagur segir málshátturinn og er greinarhöfundur engin undantekning þegar kemur að holtum, hólum, klettum og steinum í Fáskrúðsfirði og getur því ekki á sér setið að inna Daða Már eftir því hvernig honum líki það sem hann sér út um glugga sinn í skrifstofunni í  húsi Kaupfélagsins: útsýnið verður ekki mikið betra“ svaraði Daði Már, „maður verður hálf meir þegar maður horfið hérna yfir spegilsléttan fjörðinn“.

En hvað með samskipti á vinnustað gætu einhverjir spurt og því er svarað að í nútama tæknisamfélagi getur manneskja haft samband við hvern sem er í heiminum í gegn um mynd og hljóð hvenær sem er. Það eina sem þarf til góð internet tenging. Og svo hafa þessir herramenn á þriðju hæðinni alltaf þann möguleika að masa svolítið hver við annan og heimsækja starfsfólk skrifstofu Loðnuvinnslunnar í spjall í kaffitímanum ef því er að skipta.

BÓA