Þann 6.ágúst 1933 var Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga stofnað. Sú umræða að stofna kaupfélag hafði  nokkrum sinnum farið af stað bæði í Búðaþorpi og Fáskrúðsfjarðarhreppi árin á undan en stofnun félags ekki gengið eftir. Það má lesa um það í Fáskrúðsfirðingasögu að nokkuð hafi þurft að sannfæra menn um ágæti þess að stofna kaupfélag en nokkrir hreppar og bæir höfðu stofnað til kaupfélags áður sem gefið hafði góða raun.  Fundurinn var allvel sóttur og þegar upp var staðið hafði 21 skráð sig sem stofnfélagar.  Samþykkt var að félagið skyldi heita Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga og fyrsta stjórn þess var skipuð:

Þórarinn Grímsson Víkingur,  bóndi Vattarnesi

Björn Daníelsson, kennari Búðum.

Björgvin Benediksson útgerðarmaður Búðum.

Og varamaður var Höskuldur Stefánsson, bóndi Dölum.

Fyrsti kaupfélagsstjórinn var:

 Björn Ingi Stefánsson 1933 – 1946, síðan komu hver af öðum:

Einar Guðni Sigurðsson 1946 – 1949

Guðlaugur Eyjólfsson 1949 – 1955

Helgi Vigfússon 1955 – 1959

Guðjón Friðgeirsson 1959 – 1969

Páll Jónsson 1969 – 1974

Einar Jónsson 1974 – 1974

Gísli Jónatansson 1974 -2013

Friðrik Mar Guðmundsson 2013 –

Það var svo ekki fyrr en 1937 að fyrsta konan gekk í félagið og hefur þeim fjölgað jafnt og þétt eftir það.

Og nú eru 90 ár liðin. Á þessum árum hefur Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga marga fjöruna sopið og á stundum átt erfið ár. En góðu árin hafa líka verið allmörg, sér í lagi hin síðari, eftir að félaginu var breytt í eignarhaldsfélag og þess helsta hlutverk er að gæta að og hlú að dótturfélagi sínu, Loðnuvinnslunni.

Til gamans má líkja Kaupfélagi Fáskrúðsfirðinga við eldri dömu sem lætur sér fátt um finnast þegar straumar og stefnur í þjóðfélaginu ýta undir skoðanir fólks á einu og öðru.  Því þessi tiltekna dama hefur staðið af sér það sem mörg systurfélög, þ.e. önnur kaupfélög, hafa brotnað undan og leysts upp í framhaldinu.  Að sjálfsögðu hefur KFFB breyst og þróast, það rekur ekki lengur verslun, sláturhús og fiskverkun líkt og áður fyrr heldur hefur lagað sig að breyttu umhverfi en kjarni þess hefur ekki breyst. Það er enn í eigu fólksins í firðinum og lýtur enn sömu hugsjónum.

Kaupfélagið er liðlegt að styrkja starfsemi í og við Fáskrúðsfjörð. Gárungar segja gjarnan að á Búðum drekki fólki ekki kaffi saman öðruvísi en að Kaupfélagið borgi. Og er það gjarnan sagt með hlýju til þess að leggja áherslu á það hversu liðlegt félagið er að styrkja. T.a.m. var styrkjum fyrir tæpar tvær milljónir króna úthlutað á síðasta aðalfundi ( dótturfélagið LVF útdeildi 30 milljónum í styrki á sínum aðalfundi). Á síðustu tíu árum hafa Kaupfélagið og Loðnuvinnslan sett tæpar 300 milljónir út í samfélagið í formi styrkja.

Enn á félagið húseignina sem það hóf rekstur sinn í og var að einhverju leiti grundvöllur þess að félagið var stofnað. Það er  húsið sem kallað er Tangi. Þar var áður rekin verslun og þegar hún var komin í þrot árið 1933 sáu hugsjónamenn um stofnun kaupfélags sér leik á borði að reka þar verslun og þar var einnig hafnaraðstaða.  Í upphafi var í Tangahúsinu verslun og íbúð kaupfélagsstjóra en smám saman færðist verslunin í allt húsið og kaupfélagstjórinn flutti í hús sem kalla var Miðströnd. Síðar byggði félagið fallegt hús við Hamarsgötu sem nefnist Tröð sem verið hefur heimili kaupfélagsstjóra síðan.   Árið 1980 var hætt að reka verslun í Tanga en þá flutti verslunin í jarðhæðina á Skólavegi 59, húsi sem var í byggingu en jarðhæðin var tilbúin til notkunar. Eftir það var ýmisleg starfsemi í Tangahúsinu þar til það var komið að niðurlotum. Þá var tekin sú ákvörðun hjá stjórn Kaupfélagsins að endurbyggja húsið í sinni upprunalegu mynd.  Og nú er húsið bæjarprýði. Reisulegt og fallegt líkt og það var þegar það var reist árið 1895. Það var sannarlegt gæfuspor að hefja það hús til vegs og virðingar á ný.  Nú er húsið notað undir námskeiðs og fundahöld fyrir LVF auk þess sem að hópur handverksfólks við Fáskrúðsfjörð selur haldverk sitt i Gallerí Kolfreyju í gamla verslunarrýminu.

Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga hefur átt drjúgan þátt í að efla og styrkja samfélagið við Fáskrúðsfjörð og áhugi á starfsemi þess hefur aukist til muna síðustu ár eins og sjá má á aukinni aðsókn í félagið. Það hefur vaxið frá þeim rúmlega tuttugu einstaklingum sem stóðu að stofnun þess í tæp þrjú hundruð og fimmtíu einstaklinga dagsins í dag.

Steinn Jónasson er stjórnarformaður Kaupfélagsins og sagðist hann afar stoltur af stöðu félagsins í dag. „Það er sjálfu sér merkilegt að félag eða fyrirtæki nái því að verða 90 ára gamalt“ sagði Steinn og bætti því við að hann bæri þá von í brjósti að félagið ætti eftir að starfa um langa tíð, „enda ekkert sem bendir til annars, það er heilsuhraust og lífslíkur afar góðar“ sagði Steinn kíminn.

Merkilegum áföngum er gaman að fagna og þessu 90 ára gamla Kaupfélagi verður haldin afmælisfagnaður þann 15.september n.k. Þá verður líka haldið upp á 50 ára afmæli Ljósafells SU 70 sem dótturfélag  Kaupfélagsins, Hraðfrystihús Fáskrúðsfjarðar,  festi kaup á á sínum tíma en Loðnuvinnslan rekur í dag.

Allt félagsfólk Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga og allt starfsfólk Loðnuvinnslunnar er hjartanlega velkomið til fagnaðarins og hvatt til að mæta. Þar verður boðið upp á þriggja rétta máltíð og skemmtun.  Skráning á afmælisfagnaðinn er á skrifstofu Loðnuvinnslunnar, sími: 470 5000 eða á netfangið: adda@lvf.is fyrir 15.ágúst n.k.

BÓA

Ljósmynd Jónína Óskarsdóttir
Falleg jólamynd af höfuðstöðvum Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga. Ljósmynd: Jónína Guðrún Óskarsdóttir

Tangi, endurbyggt í sinni upprunalegu mynd.