Mikið er til að ljóðum og textum um sjómenn og sjómennsku. Það er að öllum líkindum ekki til önnur starfsstétt sem á sér jafnmikið af slíkum kveðskap. Í þessum ljóðum og textum er ávallt talað um karlmenn, hetjur sem sigla um heimsins höf, gjarnan nokkuð uppá kvenhöndina og nokkuð fyrir sopann. Þarna birtast staðalímyndir sem eiga ekki við nein rök að styðjast í raunveruleikanum því sjómennsku stunda allskonar fólk, af öllum kynjum. En mannfólkinu þykir gaman að raula þessi lög og þessa texta og sér í lagi á sjómannadegi. Enda er býr margt í þeim sem er fallegt og satt eins og í þessu textabroti eftir Jóhönnu Erlingsson:
“Því sem sjómaður sigli ég um hafið
og af sjónum ég heim aftur sný.
Ég uni ekki lengi í landi
hafið lokkar og laðar á ný”.
(Hafið lokkar og laðar á ný)
Sjómannadagur er dagur sjómanna, fjölskyldna þeirra, útgerða og íslendinga allra. Því allt frá landnámi hefur verið stunduð sjómennska við strendur Íslands. Hvað er þá betur við hæfi en að bjóða gestum og gangandi í siglingu. Loðnuvinnslan hefur um langt árabil boðið í slíka siglingu í tenglsum við sjómannadag. Í ár er sérstakur hátíðarbragur yfir siglingum skipanna Ljósafells og Hoffells vegna þess að Ljósafellið heldur upp á að 50 ár er síðan það kom til Fáskrúðsfjarðar og fór í sína fyrstu siglingu á sjómannadegi með fjöldan allan af gestum.
Siglingar skipanna fóru fram á laugardagsmorgni þann 3.júní, daginn fyrir hinn eiginlega sjómannadag, og er það gert til þess að áhöfnin, sem sem sér til þess að gestirnir komist í siglingu, eigi frí á sjálfan sjómannadaginn.
Sólin skein, fuglarnir sungu og lognið breyddi út faðm sinn þegar gestir steymdu niður á bryggju til þess að fara í siglingu. Á móti gestum tók ilmur af grilli og sumri þar sem tveir starfmenn Loðnuvinnslunnar stóðu og grilluðu pylsur handa hverjum þeim sem vildu. Auk þess var boðið uppá súkkulaði, gosdrykki og safa. Voru veitingunum gerð góð skil og sælir gestir gengu til borðs. Siglt var út Fáskrúðsfjörðin þar sem fallegu fjöllin stóðu vörð um sjófarendur og fánum prýdd systurskipin Ljósafell og Hoffell voru glæsileg ásýndar. Og til þess að gæta fyllsta öryggis var björgunarbáturinn Hafdís á vaktinni.
Um það bil 400 manns þáðu boð í siglingu, bæði heimamenn á Búðum sem og gestir hvaðanæva af Austurlandi. Þar á með bæjarstjóri Fjarðabyggðar Jóna Árný Þórðardóttir sem óskaði eftir því að fá að sigla með afmælisfleyinu Ljósafelli enda er það merkilegur áfangi að ná 50 ára samfelldri sjó ástundun. Er Jóna Árný var innt eftir því hvernig siglingin hefði verið svaraði hún: “Það var afar ánægjulegt að taka þátt í siglingunni á Ljósafellinu og veðrið og fjörðurinn skartaði sínu fegursta. Skipið hefur þjónað samfélaginu dyggilega í 50 ár og það var mér mikill heiður að fá að sigla með því á þessum merkisdegi. Ég vil óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra innilega til hamingju með daginn”.
Full ástæða er til að taka undir orð Jónu Árnýjar bæjarstjóra og senda sjómönnum öllum innilegar hamingjuóskir með daginn og gæfu og gengis í öllu sínum störfum.
BÓA
Ljósafell og Hoffell. Ljósmynd: Jónína Óskarsdóttir
Frá vinstri: Kristján Gísli Gunnarsson starfandi skipstjóri á Ljósafelli, Jóna Árný Þórðardóttir bæjarstjóri Fjarðabyggðar og Guðjón Anton 2.stýrimaður á Ljósafelli. Ljósmynd frá Jónu Árnýju
Smári Einarsson var skipstjóri á Hoffelli í siglingunni, hér er hann ásamt konu sinni Rakel Nguyen Halldórsdóttur. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir.
Gaman að skoða fiska. Heimir Jón Bergsson starfandi 1.stýrimaður á Hoffelli á sjómannadaginn ásamt fjölskyldu sinni. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir.
Bæjarstjóri Fjarðabyggðar Jóna Árný Þórðardóttir ásamt ungum Fjarðabyggðarbúum í starfni Ljósafells. Ljósmynd frá Jónu Ánýju.