Starfsmannafélag Loðnuvinnslunnar er kraftmikill félagsskapur sem stendur fyrir alls konar skemmtunum, uppákomum og ferðalögum fyrir sína félagsmenn. Laugardagskvöldið 3.júní hélt félagið glæsilega skemmtun í tilefni sjómannadagsins. Tilvalið er að bjóða til veisluhalda og skemmtunnar þegar sem flestir félagsmenn eru viðlátnir. Allir sjómenn í landi og fólkið sem vinnur verkin í landi viðlátið. Vel var mætt af starfsfólki LVF og mökum og ekki mátti annað sjá en að fólk nyti kvöldsins.

Veislustjóri var ekki af verri endanum, Selma Björnsdóttir leik- og söngkona stjórnaði samkomunni af mikilli fagmennsku og gleði. Sjálf sagði hún að stemmningin hefði verið frábær, fallegt og gott fólk og maturinn geggjaður. “Og stelpurnar sem tóku nútímadansinn við Loreen/Tattoo lagið áttu kvöldið skuldlaust” sagði Selma og vísaði þar til hóps kvenna sem tjáðu sig í dansi við áðurnefnt lag við mikila lukku viðstaddra.

“Svo var veðrið auðvitað tryllt” sagði Selma og bætti við: “ Takk fyrir mig og takk fyrir ykkur”.

Maturinn kom frá Bautanum á Akureyri og var um að ræða þriggja rétta máltíð sem borin var á borð og almenn ánægja var með matinn sem rann ljúflega ofan í fólk.

Að lokum var leikið fyrir dansi, þar voru á ferð Jóna Hilmar Kárason og Matti Matt ásamt félögum.  Rúsínan í pylsuendanum var að Selma söng með þeim nokkur lög og nokkuð er víst að einhverjar tær hafi verið orðnar danslúnar þegar heim var farið í bjartri sumarnóttinni eftir afar vel heppnaða skemmtun og gómsætan mat.

BÓA

Matseðill kvöldsins. Glæsilegur og girnilegur.

Hér gefur að líta gítarleikarann fingrafima Jón Hilmar Kárason og Selmu Björnsdóttur veislustjóra. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Engin verður svikin af því að hlusta á Selmu taka lagið. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Veislugestir ásamt veislustjóranum. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir