Nóg hefur verið að gera hjá starfsmönnum Fiskmjölsverksmiðju Loðnuvinnslunnar.  Það sem af er ári hefur Loðnuvinnslan tekið á móti 43.000 tonnum af loðnu, kolmunna og síld. Á ný aflokinni loðnuvertíð tók LVF á móti 37.000 tonnum af loðnu. Hoffell Su 80 landaði 11.500 tonnum en hinn aflinn kom frá norskum og færeyskum skipum sem lönduðu hér á Búðum.  28.000 tonn af þessum afla fór í bræðslu þar sem unnið er úr hráefninu mjöl og lýsi.

Við sögðum frá því í desember s.l þegar nýr þurrkari var settur upp í verksmiðjunni.  Nú eru þar þrír þurrkarar sem hafa haft nóg fyrir stafni við að þurrka allan þann afla sem farið hefur í gegn um verksmiðjuna.

Magnús Ásgrímsson er verksmiðjustjóri Fiskmjölsverksmiðjunnar og var snöggur til svars þegar hann var inntur eftir því hvernig loðnuvertíðin hefði gengið í bræðslunni: „Djöfull vel“.  Hann sagði líka að nýi búnaðurinn hefði staðið allar væntingar og reynst afar vel.

Magnús sagði að framan af vertíð hefði mikill hluti aflans farið í flokkun og frystingu og þá hefði verið skaplegt að gera hjá starfsmönnum verksmiðjunnar, en síðan hefði allt farið á fullt þegar farið var að „kútta“ , þ.e. þegar loðnan er skorin og fleytt í gegn um þar til gerða skilvindu þar sem hrognin fljóta frá og restin af fiskinum fer í bræðslu. „Þá var svo mikið að gera að við gátum ekki stoppað tækin til þess að líta yfir þau og hreinsa, en þau stóðu þetta allt af sér, sem og mannskapurinn sem hefur unnið mikið þessa dagana“.  30.000 tonn af loðnu voru skorin í hrogn á þessari vertíð á móti 15.000 tonnum í fyrra sem segir sína sögu um annríkið og verðmætsköpunina sem átt hefur sér stað hjá Loðnuvinnslunni undan farnar vikur.

Fannfergið sem við Austfirðingar fengum í lok mars mánaðar og asa hlákan í kjölfarið situr í okkur þannig að veðrið verður okkur enn tamara umræðuefni en oft áður. 

Þegar Magnús var spurður hvort að veður hefði gert starfsfólki verksmiðjunnar lífið leitt við störf sín svaraði hann því til að  í fyrstu vikunni  hefði verið mjög gott veður, síðan fór að kólna sem varð að hörkufrosti síðan kom snjórinn sem gerði starfsfólki verksmiðjunnar erfitt fyrir eins og öðrum. „Sérstaklega þegar við þurfum að koma mjölsekkjum á milli húsa“ sagði Magnús.

Mjöl og lýsi er mikilvæg afurð sem notuð er í dýrafóður.

BÓA