Loðnuvinnslan fékk skemmtilega heimsókn mánudaginn 13.febrúar s.l.  Um er að ræða níu einstaklinga  sem komu  á vegum Auðlindadeildar Háskólans á Akureyri, ásamt Herði Sævaldssyni lektor og Heiðari Þór Valtýssyni dósent.  Voru erlendu gestirnir frá  mismunandi löndum eins og  Namibíu, Sierra Lione, Kenía, Grænhöfðaeyjum,  Líberíu og El Salvador. 

Tilgangur heimsóknarinnar var kynna sér starfsemi Loðnuvinnslunnar en gestirnir eiga það sameiginlegt að vera starfandi ýmist í sjávarútvegsráðuneytum eða fiskistofum þeirra landa sem þau eru fulltrúar fyrir.

Til er nokkuð sem kallast Sjávarútvegsskóli Unesco  GRÓ og er byggt á grunni sem áður var kallað Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Skólinn er hluti af starfsemi sem kallast Þróunarsamvinnumiðstöðin, en það er sjálfstæð miðstöð um uppbyggingu færni og þekkingar í þróunarlöndum.  Samkvæmt heimasíðu Hafrannsóknarstofnunnar  er  „meginviðfangsefni skólans að byggja upp færni og þekkingu meðal sérfræðinga á sviði sjávarútvegs og fiskeldis í þróunarlöndum og innan þeirra stofnanna og samtaka er þeir vinna í“. 

Stærsti þátturinn í starfsemi skólans er sex mánaða nám fyrir sérfræðinga á sviði sjávarútvegs og fiskeldis í þróunarlöndum. Námið gengur út á að efla sérfræðingana faglega og búa þannig um hnútana að þeir geti haft áhrif í því starfsumhverfi sem þeir koma frá. Nám þetta er haldið á hverjum vetri.

Auðlindadeild Háskólans á Akureyri tók að sér menntun, þeirra níu einstaklinga sem áður voru nefndir, í fjóra mánuði af sex.  Heimsókn á Austurland er hluti af þeirri menntun.  Hörður Sævaldsson lektor við Auðlindadeildina sagði að sjávarútvegur á Íslandi væri framsækinn og byggði á tækni og að góð leið til mennta væri að nema með höndum, eyrum og augum.  „Og þess vegna heimsækjum við fyrirtæki á borð við Loðnuvinnsluna“ sagði hann og bætti við að það væri svo dýrmætt hversu fyrirtæki í sjávarútvegi væru viljug til samvinnu. „Það er ekkert sjálfgefið að fólk gefi sér tíma til þess að taka á móti hópum eins og okkur og við kunnum afar vel að meta það“

Þar sem rekstur Sjávarútvegsskólans er hluti af þróunarframlagi Íslands þýðir það að þeir sem sækja námið koma frá löndum sem eru ekki eins framarlega í tækni og búnaði eins og sjávarútvegur á Íslandi.  En nemendur eru sérfræðingar í sínum sviðum og stór þáttur námsins er að koma auga á þætti innan vinnslunnar sem þau geta tekið með sér heim og aðlagað að því sem þar er fyrir.

Loðnuvinnslan bauð gestunum fyrst í matarmikla sjávarréttasúpu á Café Sumarlínu og að því loknu var þeim fylgt í gegn um vinnsluna í Fram þar sem uppsjávarfrystihús Lvf er til húsa. Þar er tæknin við völd og allt gert til þess að hámarka gæði. Síðan var kynning á starfseminni þar sem farið var yfir rekstur og eignarhald.

Hörður sagði að nemendurnir hefðu verið alsæl með heimsóknina,  þau kunnu vel að meta súpuna góðu, framreidda úr besta mögulega sjávarfangi og ekki síður með móttökurnar hjá stjórnendum Loðnuvinnslunnar.  „Þetta var frábær heimsókn“ sagði Hörður „það var gaman og áhugavert að heyra sögu fyrirtækisins og það sköpuðust skemmtilegar umræður í hópnum, ekki síst eftir að heimsókninni var lokið“. Og Hörður sagði frá því að sú staðreynd að Loðnuvinnslan sé í eigu Kaupfélags, sem er síðan í eigu heimamanna, hafi vakið virkilega mikinn áhuga hjá fólkinu.  

Eftir að hafa heimsótt fleiri sjávarútvegsfyrirtæki í Fjarðabyggð var för hópsins heitið  á Sjóminjasafnið sem staðsett er á Eskifirði. Því eins og Hörður Sævaldsson lektor við Háskólann á Akureyri sagði svo réttileg: „ Það er líka mikilvægt að skoða fortíðina“.

BÓA

Hópurinn samankominn á skrifstofu Loðnuvinnslunnar