Starfsfólk Loðnuvinnslunnar og fjölskyldur þeirra áttu saman notalega jólastund í Skrúð í gær, spilað var bingó og bauð starfsmannafélagið uppá heitt súkkulaði með rjóma og jólakökur á eftir. Spilaðar voru 12 umferðir og voru vinningarnir hver öðrum flottari. Loðnuvinnslan og starfsmannafélagið lögðu til flesta vinninga en einnig voru aðrir styrktaraðilar líkt og Vök baths, Kjörbúðin, Hárkjallarinn, Hárbankinn og Sesam Brauðhús. Eftir síðustu umferðina birtust tveir jólasveinar og mátti sannarlega sjá bros á andlitli barnanna sem voru flest öll til í að spjalla aðeins við þá. Auðvitað komu þeir með gotterý í pokum sínum og er greinilegt að börnin hafa verið stillt og góð í desember þar sem þau fengu öll gotterý með sér heim. Þetta var virkilega notalegur jólaviðburður sem er svo sannarlega kominn til að vera.
Mikill áhugi hefur vaxið fyrir starfsmannafélaginu og fer félagsmönnum sífellt fjölgandi. Stjórn félagsins hefur sett saman viðburðatal fyrir næsta ár og stefnir á að birta það fyrir áramótin. Í stjórninni situr fjölbreyttur og skemmtilegur hópur starfsfólks og maka sem eiga auðvelt með að fara á flug þegar kemur að skipulagningu viðburða.
Text: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir
Ljósmynd: AEH