Hjá Loðnuvinnslunni vinna um það bil 180 manneskjur. Þær eru að vonum ólíkar, með ólíkar skoðanir, drauma og þrár líkt og alls staðar annars staðar þar sem fólk lifir og starfar. Deildir fyrirtækisins eru nokkrar, það er útgerðin sem heldur utan um skip og báta. Fiskvinnslan í landi, fiskimjölsverksmiðja, vélsmiðja, rafmagnsverkstæði, trésmíðaverkstæði og skrifstofa.  Innan þessara deilda vinnur fólk ólík störf og þannig gengur keðjan sem heldur fyrirtækinu gangandi. Einn er sá aðili sem hefur það að starfi að hlú að öllu þessu starfsfólki, öryggi þess og aðbúnaði. Það er Arnfríður Eide Hafþórsdóttir mannauðs- og öryggisstjóri Loðnuvinnslunnar. Eitt af hennar hlutverkum er að skipuleggja fræðsluáætlun fyrir starfsfólk. Var rétt kominn skriður á það starf þegar heimsfaraldur skall á en nú hefur heldur betur verið spýtt í lófa og síðan í vor hefur verið boðið upp á ein tíu námskeið. Mörg þessara námskeiða eru sérsniðin fyrir ákveðna starfsstétt á meðan önnur eiga erindi til allra. “Öll námskeiðin eru valkvæð en hafa verið afar vel sótt” sagði Arnfríður og tekur sem dæmi námskeið um næringu og heilsu sem var annars vegar sniðið að hinum almenna starfsmanni og hins vegar sérstakt námskeið fyrir þá aðila sem sjá um matseld, líkt og kokka á skipum sem og fyrir þá aðila sem elda fyrir fólk í landi.

“Við reynum að hafa öll námskeið á vinnutíma en stundum er ekki hægt að koma því þannig við ef að kennarinn getur ekki kennt á þeim tíma, auk þess sem öll þessi námskeið eru okkar fólki að kostnaðarlausu” sagði Arnfríður.  

Sem dæmi um þau námskeið sem boðið hefur verið upp á eru; skyndihjálp, íslenskunámskeið fyrir útlendinga, fjárhagsbókhaldsnámskeið, lyftaranámskeið, sjóvinnunámskeið og starfslokanámskeið. Er þetta hluti af þeirri fræðslu sem starfsfólki LVF hefur verið boðið upp á og dýrmætt að mörg þessara námskeiða nýtast fólki jafnt í einkalífi sem vinnu.

Aðspurð svaraði Arnfríður því til að fræðsluáætlun næsta árs væri metnaðarfull og spennandi en vildi ekki upplýsa of mikið. Nauðsynlegt að halda smá spennu, en hún gat þó sagt frá því að til stæði að bjóða upp á námskeið í iðntölvustýringum. Öll starfsemi Loðnuvinnslunnar  er sífellt að tæknivæðast og í hlutfalli við það þarf meira af sérhæfðu starfsfólki.

Arnfríður sagði einnig að LVF ætti í góðu samstarfi við Austurbrú (stofnun sem sérhæfir sig í símenntun, rannsóknum, atvinnuþróun og markaðssetningu fyrir fólk og fyrirtæki á austurlandi).

Það er eflaust nokkur kúnst að vinna að því að mæta þörfum mismunandi fólks þegar kemur að endurmenntun og fræðslu. Hjá Loðnuvinnslunni starfar fólk af 13 mismunandi þjóðarbrotum sem hvert og eitt hefur menningu upprunalandsins í blóðinu en Arnfríður sagði að það gengi vel að finna fræðslu sem hentaði öllum, sama hvaðan menn kæmu, því það er jú mennskan sem við eigum öll sameiginlegt.

Loðnuvinnslan hefur góða aðstöðu til þess að bjóða upp á mismunandi fræðslu. Í Tanga, gömlu kaupfélagshúsi í eigu móðurfélags Loðnuvinnslunnar Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga, er huggulegur salur undir súð þar sem gott er að sitja, sötra kaffi og drekka í sig þekkingu. Þá er það Whatnes sjóhúsið sem er ein elsta bygging í Búðaþorpi við Fáskrúðsfjörð og á sér langa sögu. Þar er búið að koma upp góðri aðstöðu með öllum þeim búnaði sem þarf til þess að bera fram þekkingu og kunnáttu.  Því að þegar hið harðduglega starfsfólk Loðnuvinnslunnar sest niður til að bæta við þekkingu sína og kunnáttu í þeim tilgangi að verða betri starfsmenn og/eða til að auðga líf sitt, þá er lagt kapp á að hafa umhverfið notalegt.  Það er skoðun mannauðs- og öryggisstjórans Arnfríðar Eide Hafþórsdóttur og eftir þeirri stefnu vinnur hún.

BÓA

Starfsfólk fiskimjölsverksmiðjunnar á námskeiði um gæðamál. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir
Sjómenn af Ljósfelli á sjóvinnunámskeiði.
Námskeið í næringu og heilsu fyrir sjókokka. Ljósmynd: AEH.
Næring og heilsa, námskeið flutt á ensku fyrir erlenda starfsmenn. Ljósmynd: AEH
Íslenska fyrir útlendinga.