Blessuð síldin hefur oft verið kölluð “silfur hafsins”. Er sú nafnbót komin til af því að fátt, eða ekkert,  hefur skapað jafn mikil verðmæti fyrir íslensku þjóðina eins og síldin.  Á síðustu öld voru mörg þorp og bæir allt í kring um Ísland sem lögðu grunn að grósku sinni með þeim verðmætum sem síldin færði. Engu líkara en að upp úr sjónum kæmi hreint silfur.

Hoffell kom til heimahafnar á Fáskrúðsfirði, sunnudaginn 4.desember, með 900 tonn af síld. Var þetta annar túr skipsins á síldarveiðum og óhætt er að segja að vel hafi gengið.

Sigurður Bjarnason er skipstjóri á Hoffelli og aðspurður sagði hann að fiskurinn væri fallegur þrátt fyrir að vera í minni kantinum og vel hefði gengið að afla hans. “Við fengum þessa síld út af Faxaflóa og það tók aðeins tvö hol að ná þessum 900 tonnum” sagði Sigurður og sagði jafnframt að veðrið hefði verið með ágætum þrátt fyrir einn bræludag sem skipstjórinn og áhöfn hans biðu af sér í vari.  Hann sagði líka að það mætti draga þá ályktun að töluverð endurnýjun ætti sér stað í síldarstofninum þegar horft væri til stærðar þeirra sílda sem þeir veiddu og væri það gott.

Nú er síldinni landað og unnin í síldarverkun Loðnuvinnslunnar og síðan heldur Hoffell aftur á miðin og leitar að meiri síld. Þegar skipstjórinn var inntur eftir því hvernig gengi að finna síldina svaraði hann: “Síldin fer sínar leiðir, ef torfa finnst þá getur hún horfið á tveimur tímum ef því er að skipta”.  Ástæðan fyrir því er að sjálfsögðu sú að síldin er snögg í hreyfingum og getur náð miklum sundhraða og á Vísindavefnum má lesa sér til um síld og segir þar meðal annars að “síldin sé talin hafa afburða sjón og góða heyrn miðað við aðra sjófiska”. Þá er eins gott að Hoffell er búið öllum nýjustu tækjum og tólum sem þarf til árangursríkra veiða á uppsjávarfiskum.

BÓA

Verið að landa síld í fallegu vetrarveðri. Ljósmynd: Friðrik Mar Guðmundsson
Sigurður Bjarnason skipstjóri á Hoffelli