Dagana 25. til 29.nóvember s.l. fór starfsmannafélag Loðnuvinnslunnar til Glasgow í Skotlandi.

Flogið var frá Egilsstöðum og hópurinn sem fór á vegum LVF taldi 76 manns.  Flug á milli austur strandar Íslands og  Skotlands  þykir nokkuð stutt eða tæpar tvær klukkustundir og voru ferðalangar sammála um að flugferðin hefði verið þægileg og þjónustan um borð verið til fyrirmyndar. Margir voru búnir að kynna sér hvað hægt var að gera í borginni, hvaða söfn og sýningar þar væru að finna en aðrir kusu að láta kylfu ráða kasti hvernig dögunum skyldi varið.

Veðrið var með ágætum, smá skúrir af og til fyrstu dagana en síðan brosti sólin á móti fólki.

Una Sigríður Jónsdóttir er starfsmaður LVF og var hún ein af þeim sem fóru í ferðina til Glasgow. Hún sagði að ferðin hefði verið æðisleg, hópurinn frábær og hótelið alveg framúrskarandi. “Þetta var bara í alla staði frábær ferð”, sagði Una   “góðir veitingastaðir þar sem hægt var að borða mikið af góðum mat og enn betri drykkir” bætti hún við kímin.

Una sagði borgina vera að jafna sig eftir erfið Covid ár, líkt og aðrar borgir heimsins, en jólaljósin hefðu verið falleg og fólkið sem mætti þeim í allri þjónustu verið afar indælt og elskulegt og svo var þar afar skemmtilegur jólamarkaður þar sem gaman var að ganga um og skoða.

“Svo eru búðirnar flottar og við vinkonurnar gátum alveg rölt aðeins um þær” sagði Una og ekki laust við að sæluandvarp slyppi af vörum hennar við upprifjunina.  Hún sagði frá því að einn daginn hefði hún gengið rúmlega 21 þúsund skref og henni hefði verið góðlátlega strítt á því að hún hefði nú að öllum líkindum ekki farið svo langt, hún væri jú bara svo smávaxin og tæki þar af leiðandi svo smá skref.  Hún sagði líka að það hefði verið alger snilld að heimsmeistarmótið í knattspyrnu skyldi vera í gangi því margir makar kusu heldur að sitja á kránni og horfa á spennandi fótbolta og á meðan hinn makinn lét greipar sópa í verslunum. Allir ánægðir.

Aðspurð að því hvort að hún hefði tekið sér eitthvað sérstakt fyrir hendur á meðan á dvölinni í Glasgow stóð sagði hún að hún og vinahópur hefðu farið í minigolf á mjög svo sérstakan stað. “Það var líkt og að ganga inn í listaverk, þar sem hver braut bar ákveðið þema úr þekktri bíómynd, og svo fórum við á karioki bar þar sem ákveðnir aðilar úr hópnum slóu í gegn með Lady Gaga laginu Shallow” rifjaði Una upp.

Steinþór Pétursson skrifstofustjóri hjá Loðnuvinnslunni var afar sáttur við Glasgow ferðina. “Þetta var fín ferð” sagði Steinþór “súper staðsetning á hótelinu þar sem aðeins steinsnar var á verslunargötuna fyrir þá sem það kusu og eins steinsnar frá járnbrautastöðinni fyrir þá sem kusu að fara lengra til”.  Sem Steinþór gerði ásamt góðum hópi ferðafélaga. Þau tóku lestina yfir til Edinborgar og eyddu þar dagparti við að ganga um götur, kíkja á jólamarkað og auðvitað að njóta veitinga eins og hefð er fyrir í slíkum ferðum.  Steinþór sagðist hafa gengið nokkuð um borgina til þess að skoða sig um “ég fékk mér gjarnan göngu þegar frúin kíkti í búðirnar” sagði Steinþór og bætti því við að stöku sinnum hefði hann nú staldrað við til að væta kverkarnar og kíkt þá á fótboltann í leiðinni væri hann á skjá hvort sem var.  Steinþór hafði líka orð á því hversu frábært það væri að geta flogið svona á vit ævintýra út í hinn stóra heim frá heimahögum, “þvílík þægindi að lenda og vera kominn heim eftir klukkustund” sagði hann.

Á laugardagskvöldinu bauð Loðnuvinnslan öllum í þriggja rétta máltíð á veitingastað í nágrenni hótelsins sem þau gistu. Una og Steinþór voru sammála um að maturinn hefði verið stórkostlega góður og kvöldið allt hið eftirminnilegasta.

Heyra mátti glögglega á þeim báðum að nú væri bara að bíða næstu ferðar á vegum starfsmannafélagsins því hvað er betra í þessum heimi en að njóta samvista og lífsins lystisemda með góðu samferðafólki.

BÓA

Farþegar að ganga um borð á Egilsstöðum. Ljósmynd: Friðrik Mar Guðmundsson
Fallegar jólaskreytingar. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir
Hótelið sem hópurinn gisti á. Ljósmynd: AEH
Fegurðin grípur augað. Ljósmynd: AEH
Kvöldverðaboð Loðnuvinnslunnar. Ljósmynd: Friðrik Mar Guðmundsson
Jólaljósin eru ekki spöruð. Ljósmynd: AEH.