Frá vinstri: Friðrik Mar Guðmundsson kaupfélagsstjóri, María Ósk Óskarsdóttir frá félagi um Franska daga, Eiríkur Ólafsson formaður sókanrnefndar Fáskrúðsfjarðarkirkju, Elín Hjaltalín hjúkrunarforstjóri Uppsölum, Jóna Björg Jónsdóttir frá Hollvinasamtökum Skrúðs og Steinn Jónasson stjórnarformaður Kaupfélagsins. Ljósmynd: Borghildur Stefánsdóttir

Kaupfélagið lætur ekki sitt eftir liggja þegar styrkja skal við þörf og verðug verkefni í samfélaginu. Á aðalfundi félagsins sem haldin var í Whatnessjóhúsi þann 20.maí deildi Kaupfélagið út styrkjum fyrir 8,5 milljónir króna.

Félag um Franska daga á Fáskrúðsfirði fékk 1 ½ milljón ásamt öðru eins frá Loðnuvinnslunni.

Fáskrúðsfjarðarkirkja hlaut 4 milljónir króna í styrk. Að sögn Eiríks Ólafssonar sóknarnefndarformanns verður peningunum varið til viðhalds kirkjunnar. Kominn er tími á að gera við klukkuturninn, hann er lekur og í frekar bágu ástandi. Eru uppi hugmyndir um að færa hann í upprunalegt horf og setja litla glugga á turninn.  Eiríkur var að vonum afar þakklátur fyrir styrkinn “þessi styrkur skiptir sköpum fyrir drauminn um endurbyggingu kirkjuturnsins, nú verður hægt að hrinda honum í framkvæmd” sagði Eiríkur.  Kirkjubygginginn á Búðum er sannarlega bæjarprýði.

Dvalarheimilið Uppsalir fékk 2 milljónir króna til kaupa á dýnum og áhaldaþvottavél. “Þetta er bekkenþvottavél sem er mikilvæg til þess að gæta að hreinlæti þeirra hjálpartækja sem við notumst við” svaraði Elín Hjaltalín, hjúkrnuarforstjóri á Uppsölum þegar hún var innt eftir því hvað áhaldaþvottavél væri.  Dýnurnar eru í rúm heimilsfólks, þær þarf að endurnýja með reglulegu millibili svo að íbúar Uppsala njóti góðs nætursvefns. “Þessi styrkur er ómetanlegur og kunnum við Kaupfélaginu miklar þakkir fyrir. Hann gerir okkur kleift að bæta aðbúnað þeirra, sem þiggja þjónustu á hjúkrnunarheimilinu, til muna” bætti Elín við.

Hollvinasamtök Skrúðs fékk í sinn hlut 1 milljón króna til áframhaldandi uppbyggingar og utanumhalds á félagsheimilinu Skrúði. Þeir fjármunir sem Hollvinasamtökin hafa fengið frá Kaupfélaginu í áranna rás hafa aðallega runnið til kaupa á ýmsum búnaði  s.s. myndvarpa og tjald, hljóðkerfi auk búnaðar í eldhús. Er Skrúður að verða vel í stakk búinn til þess að þar megi halda hvers kyns mannamót. Smári Júlíusson er formaður Hollvinasamtaka Skrúðs og segir hann styrkinn vera afar vel þeginn og komi að góðum notum. 

Um leið og styrkhöfum er óskað til hamingju með styrkina, fylgja þeim óskir um áframhaldandi gæfu og gengi.

Bóa