Þessa dagana er verið að setja upp ný eimingartæki í fiskmjölsverksmiðju Loðnuvinnslunnar.  Tæki þessi eru stór og þung, vega um 30 tonn og eru framleidd á Íslandi af fyrirtækinu Héðni.  Eimingartæki þessi hafa það hlutverk eyma upp soðið af fiskinum þannig að mjöl standi eftir, svo útskýrt sé með allra einfaldasta móti. En það að breyta fiski í mjöl er ferli sem þarf frekari sérþekkingu en þá sem greinarhöfundur býr yfir. 

Magnús Ásgrímsson verksmiðjustjóri sagði að afköst til eimingar muni aukast um 100% þegar tækin verða tilbúin til notkunar. Hann sagði það vera mjög jákvætt því að tækin ganga á gufu sem verður til í þurrkurum og því megi líta svo á að þetta sé “ókeypis varmi”.  “Þetta er mjög gott, því að eimingartækin gömlu voru orðin hálfgerður flöskuháls, það er búið að stækka þurrkarana og það er nýr sjóðari og þessi nýju tæki munu ganga miklu betur við þann búnað allan” sagði Magnús.  Möguleikinn til að auka afköst verksmiðjunnar eykst líka með nýjum eimingartækjum og er það vel því að allt stefnir í að komandi loðnuvertíð verði góð

Efri hluti eimingartækisins stendur langt upp úr þaki bræðslunnar og yfir það kemur síðan turn, eða einhvers konar hattur. Það mun taka einhvern tíma að koma öllum endum og leiðslum á sinn stað og áætlað er að allt verði klárt upp úr áramótum.

Heyra mátti á mæli Magnúsar verksmiðjustjóra að hann væri ánægður með að ný eimingartæki væru að tengjast þeim búnaði sem fyrir er og var því lá beinast við að spyrja hann hvort að hann væri ekki bara “virkilega happy”?  “Ég er það”, sagði Magnús, “þó að ég hefð nú kannski ekki valið að segja happy, ég er bara virkilega sáttur” sagði hinn geðþekki verksmiðjustjóri Magnús Ásgrímsson sem hefur í mörg horn að líta líkt og svo oft áður.

BÓA

Séð neðan úr verksmiðjuinni þegar efri hlutinn er látinn síga niður. Ljósmynd: Friðrik Mar Guðmundsson
Neðri hlutinn látinn síga. Ljósmynd: Friðrik Mar Guðmundsson
Efri hluti eimingartækjanna. Ljósmynd: Friðrik Mar Guðmundsson