Hoffell er á landleið með 1.650 tonn af kolmunna. Er þetta fyrsti kolmunnafarmur haustsins. Fiskurinn er veiddur í íslenskri landhelgi, aðeins um 70 sjómílum frá Fáskrúðsfirði. Og til að setja það í samhengi fyrir þau okkar sem skilja mælingar í kílómetrum betur, þá samsvarar það um 130 kílómetrum.
Sigurður Bjarnason skipstjóri á Hoffelli sagði að túrinn hefði gengið mjög vel. “Tæpir fjórir sólarhringar frá höfn í höfn” sagði skipstjórinn því til staðfestingar. Hann sagði að Hoffell væri á siglingu í fallegu haustveðri, í logni og blíðu. Þá sagði Sigurður líka að veðrið í túrnum hefði verið hið ágætasta, aðeins hefði komið smá kaldi eina nóttina. Í framhaldi spjölluðu greinarhöfundur og Siggi skipstjóri litla stund um lýsingarorð á veðri því hann sagði að það hefði verið kaldi en ekki bræla. Urðum við sammála um að stigið á milli kalda og brælu væri kaldaskítur.
Kolmunnafarmurinn sem Hoffell kemur með að landi um kvöldmat, mánudaginn 11.október, er fallegur fiskur sem fer til bræðslu hér heima á Fáskrúðsfirði.
Áhöfnin á Hoffelli drekkur kvöldkaffið heima í kvöld, heldur svo til hafs á ný, að öllum líkindum síðdegis á morgun.
BÓA