Á aðalfundi Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga föstudaginn 2.júlí 2021 veitti félagið styrki að upphæð 4,65 milljónir króna.
Hollvinasamtök Skrúðs fengu 1 milljón króna. Smári Júlíusson er formaður Hollvinasamtakanna og sagði að styrkurinn væri afar vel þeginn. “Hollvinasamtökin hafa verið svo lánsöm að fá styrki frá Kaupfélaginu, á síðast liðnum árum, til endurbóta á félagsheimilinu Skrúði” sagði Smári. Félagsheimilið hefur verið málað, snyrt og endurbætt á margan máta fyrir styrkféð og þar sem Hollvinasamtökin hafa litla sem enga möguleika á að afla fjár í því magni sem þarf til að endurbæta og viðhalda húsi af þeirri stærðargráðu sem Skrúður er, er styrkurinn algerlega ómetanlegur. Við kunnum Kaupfélaginu bestu þakkir fyrir sagði Smári.
Blakdeild Leiknis fékk 1,5 milljónir króna. Elsa Sigrún Elísdóttir er formaður blakdeildarinnar og aðspurð sagði hún peningana munu fara að miklu leiti í krakkablakið. Börn borga engin æfingagjöld hjá blakdeildinni en þjálfari þarf að fá umbun fyrir sitt starf líkt og aðrir þannig að hluti af fénu fer í það. “Svo fer drjúgur hluti í að endurnýja búnað” sagði Elsa Sigrún, “það þarf nýja bolta annað dót sem við þurfum til æfinga” bætti hún við. Elsa sagði stjórnendur blakdeildarinnar afar þakklát fyrir stuðninginn og með honum kæmist blakdeildin hjá klandri, eins og formaðurinn orðaði svo skemmtilega.
Félag um Franska daga fékk 1,5 milljónir króna frá Kaupfélaginu. Bæjarhátíðin Franskir dagar heldur upp á 25 ára afmæli síðustu helgina í júlí. Á dagskránni verður eitthvað fyrir alla en aðal áhersla verður lögð á skemmtilegheit fyrir börnin. María Ósk Óskarsdóttir Snædal er gjaldkeri félags um Franska daga og þakkar rausnarlegan stuðning Kaupfélagsins í gegn um árin.
Þá fengu blak- og knattspyrnudeild Leiknis búnað, að verðmæti 650 þúsund króna, til þess að streyma leikjum. Um er að ræða mynadvél og hljóðnema sem nota skal til þess að sýna, og lýsa með orðum, leikjum deildanna í beinu streymi. Þannig geta fjarstaddir horft á Leiknisliðin etja kappi við andstæðinga hvar svo sem menn eru niður komnir. Eru stjórnendur blak- og knattspyrnudeildar sannfærð um að þetta muni gleðja marga og gefa þeim sem ekki eiga heimangengt tækifæri til að fylgjast með. Kunna þau Kaupfélaginu allra bestu þakkir fyrir góða gjöf.
Björgunarbátasjóður Austurlands fékk 500 þúsund krónur til kaupa á björgunarbátnum Hafbjörgu. Björgunarbátasjóður Austurlands er félag sem heldur utan um rekstur björgunarbáts sem er að hluta til í eigu sjóðsins og að hluta í eigu Landsbjargar. Hafbjörg á heimahöfn í Neskaupstað.
Einar Hálfdánarson sagði styrk sem þennan hafa mikla þýðingu fyrir verkefnið. “Við sinnum hafsvæðinu frá Papey að Héraðflóa og erum gjarnan á sjó við erfiðar aðstæður og því skiptir máli að hafa góðan bát” sagði Einar og þakkar fyrir hönd Björgunarbátasjóðsins.
Skrifað stendur “sælla er að gefa en að þiggja” en á þessu bjarta sumarkvöldi er Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga deildi út styrkjum var ekki síður sælt að þiggja þvi að allur fer peningurinn í starf í þágu samfélagsins með einum eða öðrum hætti.
BÓA