Hoffell er á landleið með fyrsta makríl farm ársins. Þykir tíðindum sæta að fyrstu makrílveiðar ársins séu einni viku fyrr heldur en á síðasta ári, þegar komið var fram í júlí við sömu tímamót.

Hoffell er líka fyrst íslenskra skipa til þess að fara í Smuguna í ár en áhöfnin hóf svo veiðarnar austur við norsku lögsöguna um 400 mílum frá austurlandi sem er býsna langt að heiman. Til að setja það í samhengi fyrir  okkur landkrabbana þá samsvarar það um 740 kílómetrum.  Skipið var aðeins fjóra daga á miðunum og er með 740 tonn af makríl í lestum sínum. Sigurður Bjarnason skipstjóri á Hoffelli sagði að fiskurinn væri fallegur og að allt hefði gengið vel.  Veðrið hefði verið ágætt þótt að þeir hefðu orðið varir við kaldaskít einn daginn.  En á heimleiðinni núna síðdegis þann 29.júní, sagði skipstjórinn að þeir væru í blíðu og smá þoku. “Við verðum heima um miðnætti” bætti hann við.

Aflanum verður landað í heimahöfn á Fáskrúðsfirði og fer hann allur til manneldis.  Þegar löndun er lokið verður haldið aftur til hafs og þegar Sigurður var spurður að því hvort að hann ætti von á að þeir færu aftur svona langt eftir makrílnum svaraði hann sposkur:” Það kemur bara í ljós, fiskurinn er með sporð og syndir út um allt”. Hoffell fer aftur til makrílveiða þar sem fiskinn verður að finna.

BÓA