“Margur er knár þó hann sé smár” segir máltækið og lýsir einhverjum sem dugur er í og gerir mikið þrátt fyrir smæð. Hoffell SU er eitt af minnstu uppsjávarveiðiskipum íslenska flotans en engu að síður aflahæsta  kolmunna skipið á þessari vertíð og í öðru sæti af heildarafla eins og staðan er þegar þetta er ritað.  Það er góður árangur og góð ástæða til þess að slá á þráðinn til Sigurðar Bjarnasonar skipstjóra og heyra í honum hljóðið. Hann var að vonum ánægður með niðurstöðuna og sagði að uppskeran væri líkt og sáð var til. “Við sækjum stíft og það hefur gengið vel” sagði Siggi skipstjóri. 

Hoffell er núna að leita að makríl og sagði Siggi að þeir hefðu ekki fundi neinn enn, “hann er bara ekki kominn” sagði hann hæglátlega eins og hans er siður. Hann kvað lífið um borð ganga sinn vanagang og að áhöfnin á Hoffelli væri klár í makrílveiðar um leið og tækifæri gæfist.

BÓA

Ljósmynd Óðinn Magnason