Við áramót er oft gaman að líta um öxl og fara yfir gengin spor og sjá í baksýnisspeglinum hvaða árangur og afrek hafa unnist. Lítið gagnast að dvelja við það sem miður kann að hafa farist.
Línubátar Loðnuvinnslunnar, Sandfell og Hafrafell, hafa aflað vel undanfarin misseri og á síðast liðnu ári var Hafrafell þriðji aflahæsti línubáturinn með tæplega 1.900 tonn. Andrés Pétursson skipstjóri á Hafrafelli var að vonum kátur með árangurinn og sagði að það væri mjög gaman að verma eitt af efstu sætunum þó svo að það væri ekki eiginlegt markmið að vera efstur heldur að gera eins vel og hægt er. Andrés sagði að margt þyrfti að ganga saman til þess að ná árangri sem þessum. “Það stendur flott útgerð að baki, þar finn ég að mér, sem skipstjóra, er treyst til að taka bestu ákvarðanirnar eins og hvenær á að fara til sjós og hvenær best er að bíða af sér brælu og þess háttar” sagði Andrés. “Svo sér útgerðin til þess að við höfum nægar aflaheimildir og ekki má gleyma áhöfninni sem er frábær” bætti skipstjórinn við. Aðspurður sagði Andrés að Hafrafell væri á góðri leið með að verða mjög góður bátur. Hann sagði að viðhald og endurbætur á Hafrafelli væri í góðum farvegi og útgerðin legði metnað í að gera bátinn sem allra bestan úr garði.
Á Hafrafelli eru tvær áhafnir sem starfa í tvær vikur í senn, skipstjóri á móti Andrési er Ólafur Svanur Ingimundarson.

Sandfellið var í fyrsta sæti sem aflahæsti línubátur landsins með tæplega 2.300 tonn. Í samanburði sem þessum er verið að bera saman báta af sömu stærð. Gaman er að geta þess að Sandfell hefur verið aflahæst á hverju ári síðan Loðnuvinnslan eignaðist bátinn árið 2016. Örn Rafnsson hefur verið skipstjóri á Sandfellinu frá árinu 2014, eða frá því að báturinn var smíðaður og hann var ánægður með árangurinn. “Mér finnst gott að árið skyldi ganga svona vel” svaraði hann aðspurður. Það eru tvær áhafnir á Sandfelli og báðar státa þær af mönnum sem hafa verið lengi saman á sjó og sjálfsagt marga fjöruna sopið í þeim efnum. Sjálfur hefur Örn verið sjómaður nánast alla sína starfsævi og kann margt og mikið í þeim efnum og því lá beinast við að spyrja hann hverju hann þakkaði þennan árangur. “ Það eru nokkrir þættir sem hafa mikil áhrif, áhafnarmeðlimir eru góðir sjómenn og okkur vantar aldrei mannskap” sagði Örn og bætti því við að það væri mjög mikilvægt að geta róið þegar veður gefst og þurfa aldrei að verða stopp vegna bilunar eða viðhalds. Hann sagði Sandfell fá mjög gott viðhald hjá útgerðinni og kann hann þjónustudeildum í landi bestu þakkir fyrir og nefndi hann þar smiðjuna og rafmagnsverkstæðið.
Á Sandfelli eru einnig tvær áhafnir og skipstjóri á móti Erni er Rafn Arnarson.

Skipstjórarnir Örn og Andrés nefndu báðir mikilvægi stoðþjónustunnar
“En einn er sá sem gerir svo mikið fyrir okkur og gerir það að verkum að við getum farið þangað sem við teljum henta best, og það er bílstjórinn Siggeir Ólafsson, hann færir okkur beitu og sækir aflann þar sem við löndum” sögðu skipstjórarnir. Þeir sögðu það mikilvægt að hafa svona góðan mann í stoðþjónustu, það bæði léttir og einfaldar störf þeirra um borð og gefur þeim um leið möguleika á að fara til veiða frá þeim stað þar sem skemmst er á miðinn. Gott er að þakka vel unnin störf því fæstir vinna til afreka án aðstoðar á einhvern máta.

BÓA

Annar á leið í land, hinn á leiðinni á miðin. Myndin er fengin á Facebook síðu Loðnuvinnslunnar, tekin af Þór Jónssyni.