Hjá öflugu sjávarútvegsfyrirtæki þarf stöðugt að vera að bæta og breyta. Tækninni fleygir fram og stjórnendur Loðnuvinnslunnar hafa metnað til þess að fylgja tækninni og laga starfsemi fyrirtækisins að nútímanum eftir því sem efni, aðstæður og kostur leyfir.

Í bræðslunni standa yfir framkvæmdir sem lúta að því að skipta út svokölluðum þurrkurum, þ.e firna stórir tankar sem hafa það hlutverk að þurrka mjöl.  Í bræðslunni voru tveir gamlir þurrkarar sem keyptir voru notaðir þar inn þegar bræðslan tók til starfa árið 1996, þannig að aldur þeirra í dag er orðinn býsna hár eða rúmlega 40 ár.  Þurrkflötur gömlu þurrkarana var samanlagt 400 m2.  Nýr þurrkari er á leiðinni með skipi yfir hafið og er hann væntanlegur á næstu dögum. Hefur hann þurrkflöt uppá 690m2, sem er umtalsvert meira en þessir tveir sem hann leysir af hólmi, og hann vegur 100 tonn!

Magnús Ásgrímsson er verksmiðjustjóri í bræðslunni og aðspurður svaraði hann því til að ástæða þess að ráðist var í þessa framkvæmd væri sú að gömlu þurrkararnir þyrftu orðið nokkuð mikið viðhald en sá nýji gæfi möguleika á auknum afköstum auk þess sem honum fylgdi aukið rekstraröryggi. “Svo er þetta enn eitt skrefið í að bæta starfsemi bræðslunnar” sagði Magnús.  Gömlu þurrkararnir eru þó ekki komnir á eftirlaun, því þeir hafa verið seldir og þeirra bíða ný verkefni annars staðar.

Þá er verið að byggja mjölskemmu við austurgafl bræðslunnar. 700m2 hús sem tekur rúmlega 2.000 tonn af mjöli í pokum. Grunnur og gólf er steypt og síðan kemur reisulegt  stálgrindarhús þar ofaná þar sem lofthæðin er 10 metrar uppí mæni. Tilgangurinn með svo mikilli lofthæð er sá að þá er hægt að stafla mjölpokunum hverjum ofan á annan og á þann máta nýtist húsið vel.  Magnús sagði að hús af þessu tagi væri kærkomið því oft þarf að koma miklu magni af mjöli í geymslu áður en það er sent um heimsbyggðina til þeirra sem það kaupa.

BÓA

Þurrkari á förum. Ljósmynd: Friðrik Mar Guðmundsson
Þurrkari kominn út. Ljósmynd: Friðrik Mar Guðmundsson
Grunnurinn og platan fyrir mjölgeymsluhúsið. Ljósmynd: Friðrik Mar Guðmundsson