“Tíminn flýgur áfram og hann teymir mig á eftir sér” segir í texta eftir Megas og eru það orð að sönnu. Þarfir og kunnátta breytist í takt við tímann og mannfólkið þarf sífellt að læra á nýja hluti, nýja tækni og ný tækifæri. Í þessu samhengi er mjög ánægjulegt að segja frá höfðinglegri gjöf sem Loðnuvinnslan færði Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar. LVF gaf róbóta sem notaðir verða við að kenna nemendum forritun. Allir nemendur skólans, frá 1.bekk og uppúr, læra forritun. Í nútíma samfélagi er mikilvægt að hafa skilning og kunnáttu í þeim efnum. Sífellt fleiri störf krefjast slíkrar kunnáttu og engin veit með vissu hvernig störf framtíðarinnar verða og því er mikilvægt að hafa skilning á mörgum hlutum og er forritun ein af þeim.
Nemendur hafa um nokkurra missera skeið lært að forrita í spjaldtölvum en ekki haft tækifæri til að sjá neinar aðgerðir nema á tölvuskjánum. Með komu róbótanna breytist það, þá geta nemendur forritað þá til þess að fara fram og til baka, snúa í hring, blikka ljósi og hvað eina annað sem forritaranum dettur í hug. Í gjöf Loðnuvinnslunar voru sex róbótar sem ætlaðir eru nemendum frá 6 ára aldri og aðrir sex róbótar sem ætlaðir eru nemendum frá 11 ára aldri. Búa þeir róbótar sem ætlaðir eru eldri nemendum yfir meiri möguleikum. Auk þess fylgdi með í gjöfinni allskyns aukahlutir eins og armar, boltar og fleira til þess að vinna með.
Eygló Aðalsteinsdóttir skólastjóri er afar þakklát fyrir gjöfina. “Þetta er frábær gjöf og kemur sér svo sannarlega vel” sagði Eygló og bætti þvi við að ómetanlegt væri fyrir skólann að eiga slíkan hauk í horni sem Loðnuvinnslan er.
Nemendum var gerð grein fyrir gjöfinni þegar hún barst og greina mátti tilhlökkun og spennu að fara að vinna með róbótana.
BÓA