Steinar Grétarsson er nýráðinn verkstjóri hjá Loðnuvinnslunni. Hans helsta starfssvið er að vera verkstjóri við vinnslu á uppsjávarfiski auk þess að sinna tilfallandi verkstjórn í frystihúsinu.

Steinar er ekki nýr í starfi hjá Loðnuvinnslunni, hann hefur starfað þar samanlagt í u.þ.b. 20 ár sem sjómaður, verkamaður í landi og nú síðast í vélgæslu.

Steinar er fæddur og uppalinn Fáskrúðsfirðingur, hefur búið hér við fjörðinn alla sína tíð utan skamms tíma annars staðar.  Hann fetaði veg sem margir ungir menn hafa fetað á undan honum; kláraði grunnskólann en vildi svo fara út að vinna. Þá lá beinast við að fara að vinna við fiskvinnslu, þar var næga vinnu að fá og launin bærileg. Á 17 ára afmælisdaginn fór hann síðan til sjós á skipi sem hér Klara Sveinsdóttir og förinni var heitið í Flæmska hattinn, túrinn varð ansi langur en sex mánuðum síðar kom Klara aftur til hafnar á Fáskrúðsfirði.

Steinar hóf síðan nám í vélvirkjun og fór á samning í vélsmiðju Lvf og samhliða því að vinna í smiðjunni stundaði hann afleysingar á Ljósafelli og gamla Hoffellinu þar sem hann fékk svo fasta stöðu og sjóinn stundaði hann um tíma. “Mér líkaði vel á sjó, en finnst samt betra að vera í landi. Það er alltaf best að leggjast á koddann heima hjá sér á kvöldin” sagði Steinar.

Eins og áður sagði starfaði Steinar við vélgæslu hjá Loðnuvinnslunni áður en hann tók að sér verkstjórastarfið. Í því felst að viðhalda, laga og huga að öllum vélbúnaði fyrirtækisins sem er allnokkur og fer stækkandi eftir því sem tækninni fleygir fram. “Allt frá frystitækjum til voga og allt þar á milli” svaraði Steinar þegar hann var inntur eftir því hvaða vélar það væru sem vélgæslumaður gætir.

Segja má að Steinar sé alinn upp við störf í síld, loðnu og makríl. Hann tekur við starfi sem faðir hans, Grétar Arnþórsson, hefur gengt á langt árabil. Grétar hefur lögnum verið einn helst síldarsérfræðingur Loðnuvinnslunnar og Steinar tekur nú við keflinu og mun, ef að líkum lætur, njóta sömu velgengni og faðir hans.

Er Steinar var inntur eftir því hvort að hann væri tilbúinn í starfið svaraði hann: “já, ég er það, hluti af starfi verkstjóra við vinnslu á uppsjávarfiski er að ákveða í hvað fiskurinn fer, sér í lagi síld, á að setja hana í salt, krydd, í flök eða bita?” “Pabbi hefur reynt að kenna mér þetta í gegn um tíðina” bætti hann við kíminn.

En lífið er ekki bara vinna, það þarf líka að líta uppúr hversdagslegu amstri og Steinar var fljótur til svara þegar hann var spurður um áhugamál og hvað hann sýslaði utan vinnu. “Að vera með fjölskyldunni og helst í útilegu, það finnst mér gott og skemmtilegt. Þá skiptir tíminn engu máli, það þarf ekki að vera að gera eitthvað sérstakt, bara slaka á og njóta samvista við fólkið sitt” sagði hann og benti svo út um gluggann á stóran jeppa og bætti við: “þessi jeppi er líka áhugamál mitt, að vinna við þennan bíl sem við frændurnir (Daníel Ármannsson) eigum saman er mjög gaman, s.l. vetur skelltum við í hann nýrri vél, BMW mótor og nú er hann eins og sportbíll á 44” dekkjum” sagði Steinar og hlaut að launum aðdáunaraugnaráð greinahöfundar sem telur sig hafa nokkuð vit á jeppum.

Steinar á langveikt barn, hann og konan hans, Eydís Ósk Heimisdóttir, þurftu að dvelja mánuðum saman með stúlkubarnið á spítala í útlöndum og greinarhöfundur gat ekki látið hjá líða að spyrja Steinar að því hvort að lífreynsla sem þessi hefði breytt honum sem persónu.  “Það mótar mann, er lærdómsríkt, og það hægir á manni,  það er alveg á hreinu” svaraði hann og bætti því við fjölskyldan hefði áttað sig á því hvað þau hefðu það í raun gott miðað við aðstæður “við eigum svo gott bakland, ekki aðeins stórfjölskyluna sem stóð við bakið á okkur sem einn maður, heldur líka vinnustaðurinn, vinnufélagar og samfélagið allt hér við Fáskrúðsfjörð”.

Steinar er byrjaður í nýja starfinu, og þrátt fyrir að honum hefði líkað vel í vélgæslu starfinu fannst honum kominn tími til að breyta til og takast á við þá ábyrgð sem fylgir því að hafa mannaforráð. “Mér líst vel á þett og ég hlakka til að takast á við ný verkefni” sagði Steinar Grétarsson.

Þá er ekki annað eftir en að kveðja þennan geðþekka verkstjóra, óska honum velfarnaðar í nýju starfi og sparka léttilega í 44”hjólbarðanna í jeppanum þegar gengið var framhjá.

BÓA

Steinar Grétarsson