Þegar Sandfell kom að landi á sjálfan þjóðhátíðardaginn hafði þessi knái línubátur veitt samtals 10.000 tonn síðan hann kom til Fáskrúðsfjarðar í febrúar árið 2016. Þykir það góður árangur að fiska að jafnaði 2300 til 2400 tonn á ári.
Rafn Arnarson skipstjóri á Sandfelli sagði aðspurður að hann væri mjög sáttur við árangurinn, hann þakkaði þetta góðu samstarfi áhafnar og úrgerðar. “Sandfellið er mjög góður bátur og samstarf áhafnna er mjög gott, við vinnum þetta saman” sagði Rafn. En á Sandfellinu eru tvær áhafnir sem vinna í tvær vikur í senn.
Vegna þess glæsilega árangurs fékk áhöfnin fallega köku frá Loðnuvinnslunni sem Rafn sagði að hefði runnið ljúflega ofan í áhöfn og gesti. “Hún var mjög góð, og alltaf notalegt að fá hrós og viðurkenningu þegar vel gengur” sagði skipstjórinn.
Ekki una þeir lengi í landi, eins og segir í dægurlagatextanum, því strax að lokinni löndun, kaffi og kökusneið var farið út aftur. Og þegar Rafni skipstjóra var boðið að segja eitthvað að lokum sagði hann: “Gleðilegan þjóðhátíðardag” og við svörum að sjálfsögðu í sömu mynt og óskum Sandfellinu áframhaldandi velgengni.
BÓA