Aðalfundur Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga var haldin í Wathnesjóhúsinu þann 16.júní 2020. Líkt og endranær lét félagið  peninga af hendi rakna til góðra málefna. Samanlögð upphæð styrkja var 3,6 milljónir. Samanlagt afhentu Kaupfélagið og Loðnuvinnslan styrki að upphæð 22,4 milljón króna.

Fimleikadeild Leiknis fékk 1 milljón króna. Verður styrkurinn nýttur uppí kaup á dansgólfi. Um er að ræða sérstaktakan búnað sem minnkar álag á hné og liði þegar fimleikafólk gerir æfingar á gólfi.  Valborg Jónsdóttir veitti styrknum móttöku fyrir hönd deildarinnar.

Frjálsíþrótta og skíðadeild Leiknis fékk 1 milljón króna. Verður styrknum varið í að kaupa búnað sem nýtist frjálsíþróttafólki og skíðaiðkendur frá hluta af styrknum fyrir sína starfsemi. Tania Li Mellado tók á móti styrknum fyrir hönd deildarinnar.

Þá fékk afmælisnefnd Leiknis 1 milljón króna í styrk. Þórunn María Þorgrímsdóttir tók við styrknum fyrir hönd afmælisnefndar. Ungmennafélagið Leiknir fagnar 80 ára afmæli á þessu ári og er því af sömu kynslóð og Kaupfélagið, aðeins sjö árum yngra. Að vonum er ástæða til að fagna stórafmælum sem þessum með veglegum hætti og til stendur að efna til fagnaðar á haustmánuðum með skemmtiatriðum og veitingum og þá mun hluti af styrknum renna í að niðurgreiða fatnað með merki Leiknis, þar sem 80 farsælum árum er fagnað, sem og merki Kaupfélagsins. Nú þegar má sjá marga bæjarbúa, stóra sem smáa klæðast slíkum peysum og er það vel. Þarna sameinast á peysum og bolum tveir af öldungum sem hafa verið svo ríkur þáttur í lífi fólks í samfélaginu við Fáskrúðsfjörð.

Bókasafn Fáskrúðsfjarðar fékk 300.000 króna styrk til þess að kaupa húsgögn á safnið. Guðrún Gunnarsdóttir bókasafnsfræðingur tók við styrknum og sagði hún að peningunum yrði varið í að útbúa aðstöðu og umhverfi þar sem gestir safnsins gætu sest niður, flett bókum og blöðum og átt notalega stund á bókasafninu. Bókasafnið er opið öllum bæjarbúum og þangað er gott að koma.

Þá fékk Félag eldri borgara á Fáskrúðsfirði 75” sjónvarp að gjöf. Sjónvarpinu verður komið fyrir í félagsheimilinu Glaðheimum og mun að vonum nýtast félagsmönnum vel. Þórormur Óskarsson formaður tók við styrknum.

Styrkþegar eru afar þakklátir fyrir stuðningin og haft er eftir ungum íþróttaiðkanda að “það væri ömurlegt ef við ættum ekki Kaupfélag, þá væri ekki hægt að æfa neinar íþróttir”. Þarna sér barnið fegurðina í góðri samvinnu og samhug sem lítið samfélag, eins og lifir við Fáskrúðsfjörðin, vill státa sig af.

BÓA

Frá vinstri: Þórormur Óskarsson, Þórunn María Þorgrímsdóttir, Tania Li Mellado, Valborg Jónsdóttir, Guðrún Gunnarsdóttir og Steinn Jónasson stjórnarformaður.