Á dögunum hlaut Loðnuvinnslan jafnlaunavottun. En það mikill áfangi hjá fyrirtæki að hljóta slíka vottun og til þess að fá frekari upplýsingar hafði greinarhöfundur samband við Ragnheiði Ingibjörgu Elmarsdóttur mannauðs- og öryggisstjóra Loðnuvinnslunar. Lá beinast við að spyrja Ragnheiði að því hvað jafnlaunavottun væri? “Fyrirtæki fær jafnlaunavottun þegar það uppfyllir kröfur jafnlaunastaðalsins ÍST:85 2012 og kröfur laga um jafna stöðu og rétt kvenna og karla. Markmiðið er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði” svaraði Ragnheiður. 

En það er ekki hrist fram úr erminni að hljóta slíka vottun, það þarf að undirbúa vel og fara yfir öll launamál og er þetta ferli búið að taka u.þ.b. eitt ár þar sem ferlið hófst síðast liðið sumar. Faggildur vottunaraðili þarf síðan að fara yfir málin og taka út jafnlaunakerfið og í tilfelli Loðnuvinnslunnar var það BSÍ á Íslandi sem sá um þá vinnu.

Ragnheiður sagði að með þessari vinnu hefði Lvf tileinkað sér nýtt verklag á ýmsum sviðum sem nýtast munu til framtíðar. “Svo förum við í reglulegar jafnlaunaúttektir til að viðhalda þeim árangri sem  náðst hefur” bætti hún við.

En hvaða þýðingu hefur það fyrir Loðnuvinnsluna að hljóta slíka vottun? “Það er gott fyrir starfsfólk Loðnuvinnslunnar að vita að unnið sé eftir ákveðnu verklagi sem tryggir að launaákvarðanir byggi á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun.Í því felst ákveðið öryggi fyrir starfsfólk að vita að fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf eru greidd jöfn laun” svaraði Ragnheiður og bætti við að Loðnuvinnslan væri afar stolt af því að vera komin með heimild til þess að nota jafnlaunamerkið.

Að sjálfsögðu er einungis þeim fyrirtækjum sem gengið hafa í gegn um úttekt og hlotið vottun heimilt að nota jafnlaunamerki og er það ákveðin gæðastimpill fyrir hvert það fyrirtæki sem það hefur.

BÓA