Skrifstofa Loðnuvinnslunnar fékk góðar heimsóknir í morgun, þangað mættu hópar af börnum og sungu af hjartans list. Ástæðan fyrir komunni, söngnum og búningunum sem sjá má á meðfylgjandi mynd, er sú að í dag er öskudagur.

Öskudagur á sér langa sögu, svo langa að nafnið öskudagur kemur fyrir í íslenskum handritum frá 14.öld og aðrar heimildir benda til þess að hann sé enn eldri.  Öskudagur á upphaf sitt í kristnum sið og markar upphaf lönguföstu. Er þessi umræddi dagur ávalt á miðvikudegi í 7.viku fyrir páska.

Víða í heiminum eru haldnar kjötkveðjuhátíðir síðustu dagana fyrir lönguföstu, þá klæðist fólk skrautlegum búningum, dansar og syngur um götur og stræti.  Vísir að þessum sið barst  til Íslands fyrir margt löngu síðan. En þar sem veðurfar á þessum árstíma bíður varla uppá mikil hátíðahöld utandyra, hefur sá siður að klæðast búningum og slá köttinn úr tunnunni náð mestri fótfestu, og í dag  má nærri geta að öskudagur sé einn af eftirlætisdögum ungu kynslóðarinnar.  Börn og fullorðnir klæðast búningum, ganga á milli fyrirtækja og stofnana syngjandi lög og söngva og fá að launum sælgæti eða annað sem gleður. 

Hér á Fáskrúðsfirði taka skólarnir virkan þátt í öskudegi. Í Grunnskólanum  skipuleggja nemendur göngu um bæinn með viðkomu hér og þar í von um að eitthvað óvænt safnist í poka og töskur. Leikskólabörnin gera slíkt hið sama. Á skrifstofu LVF var börnunum vel tekið og þau fengu góðgæti að launum fyrir ánægjulega heimsókn.

BÓA

Grunnskólabörn á skrifstofu Loðnuvinnslunnar