Við fjöruborðið innarlega í Búðaþorpi stendur hús sem heitir Hvoll. Þann 21.október 1953 fæddust tvíburadrengir í Hvoli sem fengu nöfnin Óðinn og Þórir.  Saga segir að þeir hefðu átt að heita Óðinn og Þór en að annað hvort hafi presturinn heyrt skakt eða mismælt sig því að annar drengurinn var nefndur Þórir en ekki Þór.  Umræddur Þórir Traustason, eða Tóti eins og hann er gjarnan kallaður, hefur verið sjómaður alla sína starfsævi, byrjaði á vetrarvertíð tæpra 16 ára gamall á gamla Búðafellinu. En nú hefur Tóti hengt upp sjóhattinn sinn, tekið pokann sinn og sagt skilið við sjómennskuna til að hefja nýjan kafla í lífi sínu. Hin eftirsókaverðu eftirlaunaár eru framundan. 

Greinarhöfundur heimsótti Tóta á heimili hans og konu hans Aðalheiðar Sigurbjörnsdóttur. Þar er tekið vel á móti gestum og heimilið, í sínum fallega búningi jólanna, er hlýlegt og notalegt og gott að setjast þar niður með góðan kaffibolla og smákökur og spjalla um þessi tímamót í lífi Tóta og rifja upp öll árin á sjónum.

Sem ungur drengur fór Tóti að sækjast í að fara með nágranna út á séttu til þess að vitja neta og draga línur. “Við fórum líka til þess að ná í eldivið” sagði Tóti, “þá var róið yfir fjörðinn og spýtnabrak og rekaviður var hirtur upp og nýttur í eldivið”.  Hann segir að sjórinn hafi alltaf heillað enda alinn upp í eins miklu návígi við hafið og hægt er. Búi maður í húsi á landi á annað borð verður varla komist nær hafinu en gert er á Hvoli.

Tóti var um tíma á hinum ýmsu bátum sem gerðir voru út frá Fáskrúðsfirði eins og Bárunni, Hoffelli (hinu fyrsta ), Hilmi, Sólborgu og svo var hann vélstjóri á Þorra þegar hann fór í hafið út af Ingólfshöfða. “Það fór að leka og það var ekki við neitt ráðið. Við vorum komnir á björgunarbáta þegar okkur var bjargað í annan bát” rifjar Tóti upp og segir að auðvitað hafi mönnum verið nokkuð brugðið en í áhöfninni voru enn yngi menn en Tóti sem auðvitað voru nokkuð skelfdir.

“Og vildir þú fara aftur á sjó eftir þessar hrakfarir”? spurði greinarhöfundur nokkuð áköf.

“Já, já, það hvarlaði aldrei að mér að fara að vinna í landi bara vegna þessa” svaraði Tóti að bragði.

Þann 18.febrúar 1981 fór Tóti svo í fyrsta túrinn á Ljósafelli. Tveir áhafnarmeðlimir höfðu “dottið í það” og földu sig svo að það vantaði mann. “Ég var að vinna í salthúsinu þá og það var komið að máli við mig og nokkrum augnablikum seinna var ég kominn um borð” Svona vilja tilviljanir oft skrifa stóran kafla í líf okkar.  Tóti var ýmist háseti, bátsmaður eða annar stýrimaður um borð. “Fyrsti túrinn tók 5 daga og við komum að landi með 196 tonn!” sagði Tóti og við spjöllum litla stund um þá staðreynd hvað margt hefur breyst á þessum árum, bæði hvað varðar aðbúnað um borð í skipum og bátum, veiðafærin, verklag og vinnuaðstöðu. Tóti segir frá því að stundum hafi þeir fiskað svo mikið af karfa og grálúðu sem var síðan heilfryst um borð að þeir hafi tæmt matarfrystinn til þess að skella þar inn aflanum.  Þeir reynda að halda frosti í matvælunum með því að vefja þau inní  flíkur og teppi á meðan siglt var í land.

Þegar Tóti er inntur eftir því hvort að hann hafi ekki starfað með mörgum eftirminnilegum körlum á sjónum segir hann auðvitað að svo hafi verið því að á svona langri starfsævi til sjós vinnur maður með mörgum.  En hann rifjar upp eina skemmtilega sögu af vænum manni sem sem var kokkur á bát þar sem Tóti var vélstjóri. “Við vorum í siglingu ( á leið til útlanda að selja afla) og kokkurinn eldaði kjúkling. Hann hafði það til siðs að safna beinum í ísbox sem gekk undir nafninu Mávastellið og vaninn var að tæma úr þessu boxi út um kýraugað í eldhúsinu, eins og gert var á þessum árum. Ég var að vinna í vélarúminu með öðrum manni og við komum seint í mat en kokkurinn hafði gætt þess að það voru tveir kjúklingar eftir. Og þegar við mætum í matinn kemur karlinn  með kjúklingana og hendir þeim út um kýraugað í stað þess að setja þá á borðið… hann ruglaðist aðeins”.

Svo kemur önnur saga: “ Ég fór til Póllands til þess að sækja Ljósfellið í slipp og eitthvað hafði flugmiðinn minn frá Kaupmannahöfn til Póllands misfarist en ég náði nú að bjarga mér um annan miða í Kaupmannafhöfn og síðan elti ég bara Pólverjana. Þarna voru fullt af mönnum sem voru að vinna við að byggja Kárhnjúkastíflu og voru í fatnaði sem var tryggilega merktur þeirri framkvæmd þannig að ég vissi að þeir voru á leið heim. Svo ég komst heilu og höldnu á áfangastað”.

Fyrir níu árum síðan var Tóti orðinn slitinn í skrokknum og hafði hug á því að hætta til sjós. “Þá kom Óli Gunnars (þáverandi skipstjóri á Ljósafelli) og spurði mig hvort ég væri ekki til í að fara út á sjó sem kokkur á meðan hann leitaði að einhverjum til að taka starfið og ég sló til. Ég hef kokkað ofan í áhöfnina á Ljósafelli í þessi níu ár” sagði Tóti brosandi.  “Er ekki skrýtið að hugsa til þess að þú eigir aldrei eftir að fara til sjós á Ljósafellinu aftur eftir að hafa verið þar í 39 ár”?  Svarið kom um hæl: “Ég hef ekkert hugsað um það. Ég byrja á því á morgnana að kíkja á netið til að sjá hvar skipið er, ef það er ekki við bryggju, og ég mun halda því áfram” sagði kokkurinn geðþekki. 

Loðnuvinnslan færði Tóta og áhafnarmeðlimum hans köku í tilefni starfslokanna og þá fékk hann líka gjöf sem gladdi frá félögum sínum.

Tóti og Alla kona hans ætla sér að dvelja fyrstu mánuði nýs árs á Spáni. Þau hafa leigt sér  íbúð og ætla að koma sér þar fyrir og njóta sólar og hlýju. Koma svo heim á landið bláa þegar fer að vora hér. Enda eru þeirra skyldur helstar núna að láta sér líða vel og njóta lífsins. 

Hinu formlega spjalli var lokið en þá tók við skemmtilegt spjall við þau hjónin um húsið þeirra og heimili, fallegu pakkana sem Alla hafi pakkað af svo mikilli natni og eru ætlaðir barnabörnunm sem eiga greinilega stóran sess í hjörtum ömmu og afa og forláta harmoníum orgel sem stendur stórt og stæðilegt í einu herbergi hússins.  Með þökkum kvaddi greinarhöfundur heiðurshjónin Þórir Traustason og Aðalheiði Sigurbjörnsdóttur.

Loðnuvinnslan þakkar Tóta fyrir hans góðu störf og óskar honum velfarnaðar, gæfu og gengis.

BÓA

Hjálmar Sigurjónsson skipstjóri á Ljósafelli, Þórir Traustason og Kjartan Reynisson útgerðastjóri LVF
Tertan góða